144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[17:21]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Ég hef ekki áhuga á því að taka Evrópuþingið eða nokkuð annað þing í gíslingu. Það er ekki (Gripið fram í.)þau vinnubrögð sem ég vil helst viðhafa, að taka einhvern í gíslingu. Ég vil heldur tala við fólk og eiga samræður við fólk þannig að fólk eigi samræðu en þylji ekki alltaf sömu gömlu tugguna ár eftir ár úr þessum stól, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson gerir hér og maður þarf að hlusta á ár eftir ár. Þetta er alltaf sama mantran þar sem er meira og minna farið vitlaust með. Það er svoleiðis. Við erum greinilega á öndverðum meiði.

Það sem ég skil ekki almennilega er að ég skuli lenda í því að deila við hv. þingmann um eitthvað sem ég á ekki að þurfa að deila um. Ég er þeirrar skoðunar að ef það er fundur og ég er á fundinum sé möguleiki á því að ég geti haft áhrif, en það er alveg klárt ég hef engin áhrif ef ég er frammi á gangi, engin. Það er svo einfalt. Ég þarf ekki að þrátta um það við hv. þingmann, svona er lífið.

Svo er annað sem menn segja. Þeir vilja tala mikið og oft um að allt sé seinvirkt í Evrópustrúktúrnum og það er alveg hárrétt. En ég segi líka stundum: Þetta er samstarf 28 ríkja og eðlilegt að það taki langan tíma. Það er eðlilegt að það taki fólk frá 28 þjóðlöndum langan tíma að vinna saman og starfa saman. Það er ekkert athugavert við það.