144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[17:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki ætlaði ég að taka heiðurinn af hæstv. fjármálaráðherra fyrir að hafa unnið að því hér fyrr á árum að setja upp leiðsögn um hvernig ætti að stýra þeirri vinnu. Ég man vel úr utanríkismálanefnd á síðasta kjörtímabili að þar var eitthvert plagg sem hafði verið unnið undir forsjá hans sem var farið eftir þegar við vorum að tala um hvernig við ættum að fara með þetta innan þingsins.

Mitt álit er að við höfum reynt það og auðvitað þarf þingið einhvern veginn að vinna að því. Mitt mat er að sá veggur sem þar var reistur sé svo hár að hann er erfiður. Stundum þarf maður að vinna þannig að maður segir: Auðvitað vildi ég helst gera hlutina svona, en ef ég ræð ekki við þá svoleiðis þarf ég að sníða þá að því sem ég ræð við og að því sem við ráðum við. Við þurfum að horfast í augu við það í þinginu, og náttúrlega ríkisstjórnin og hæstv. utanríkisráðherra líka, að það eru miklar áhyggjur af því hjá ESA og gagnaðila okkar að samningnum hvað við erum sein að innleiða. Við þurfum að reyna að svara því. Ef það eru tveir sem semja þá viljum við náttúrlega ekki, ég held að við viljum það ekki sjálf, vera alltaf í einhverri skömm og vera í hættu á að vera stefnt fyrir dómstólinn af því að við erum ekki búin að innleiða eitthvað. Ég er ekki að gagnrýna menn hérna og segja að þetta sé allt ómögulegt. Ég er bara að segja (Forseti hringir.) að við þurfum að horfast í augu við þetta og taka ákvarðanir um (Forseti hringir.) eitthvert kerfi sem við ráðum við.