144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[17:43]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú ekki allskostar sammála greiningu hv. þingmanns, hvorki á Evrópusambandinu né á þeim samningum sem hann vísaði til, TTIP, sem eru viðskiptasamningar milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins og þar með okkar á endanum, og hann segir að séu gríðarlega mikilvægir fyrir okkar hönd. Þetta er sams konar eða svipaðs eðlis og TiSA-samningarnir, Trade in Services Agreement var það sem ég mundi ekki í augnablikinu áðan, og eru alls ekki það sem hæstv. þingmaður talaði um, tollasamningar. Þetta er miklu dýpra.

Reyndar var það Evrópusambandið sem hann sagði að væri gamaldags tollabandalag. Það á að mínum dómi miklu fremur við um EFTA, gamla EFTA. Evrópusambandið og EES-samningurinn hefur verið að þróast yfir í miklu dýpra samkomulag innri markaðar þar sem menn skuldbinda sig til að niðurgreiða enga starfsemi þannig að allir standi jafnfætis á markaði. Það er það sem fátæku ríkin telja að hafi ekki verið þeim í hag. Þau vilja að lýðræðið ráði meiru í þeirra samfélögum, en þessir samningar gera ráð fyrir.

Þegar hv. þingmaður segir að þriðji heimurinn, fátæki hluti heimsins, hafi tapað mest á því að gangast ekki inn á GATS-samningana, eins og þeir lágu fyrir 2008, þegar þeir fóru í strand — eigum við ekki bara að leyfa þeim að dæma um það sjálfum? Við þurfum ekki að hafa svona forræðishyggjuhugsun gagnvart þeim. Þetta var samdóma álit fátækari hluta heimsins, þá tóku hin sig út úr til þess að þröngva þessum samningum upp á þau eins og segir reyndar í skýrslunni að vonir standi til að gerist á endanum.