144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

Norræna ráðherranefndin 2014.

611. mál
[18:46]
Horfa

ráðherra norrænna samstarfsmála (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir utan landamærahindrunarráðið sjálft, sem fékk aukið og víðtækara hlutverk með þeim breytingum sem voru gerðar og byrjað var á í upphafi síðasta árs, þá erum við búin að samþykkja — ég held að það komi að vissu leyti inn á þetta, þó að það heyri undir félags- og heilbrigðisráðherrana, sem snýr beint að almannatryggingunum, má segja að við séum að fara af stað með nýtt verkefni sem heyrir undir vinnumarkaðsráðherrana, nýtt Könberg-verkefni, þar sem við ætlum að fara yfir stöðuna og skipulag á hinum samnorræna vinnumarkaði. Við teljum að það sé orðið mjög tímabært. Við héldum mikla hátíðarráðstefnu og það var mjög áhugavert að hlusta á upplýsingar um hvert fólk er að flytja innan Norðurlandanna og þróunina sem hefur orðið þar.

Það gerði að verkum að ýmsar spurningar vöknuðu þegar fram komu á fundinum fullyrðingar um að í raun er kannski ekki neitt lengur sem við getum talað um sem norrænan vinnumarkað heldur erum við hluti af hinum evrópska vinnumarkaði. Þegar svona fullyrðingar koma fram á fundum á vegum norrænu ráðherranefndarinnar er ástæða til að stoppa aðeins við og spyrja: Er það í raun og veru svoleiðis? Viljum við hafa það þannig? Er það ekki hlutur þar sem við viljum ganga lengra með, tryggja, eins og ég hef orðað það, að það sé þannig að þegar maður flytur á milli Stokkhólms og Reykjavíkur sé það jafn auðvelt og að flytja á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar? Þróunin hefur verið önnur frá því að við sáum Evrópska efnahagssvæðið verða til eftir að nokkur Norðurlandanna stigu þau skref að ganga í Evrópusambandið, að áherslan hafi þá meira verið á samstarfið á evrópskum vettvangi en á norrænum.