144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

Norræna ráðherranefndin 2014.

611. mál
[18:48]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mér finnst það rosalega mikilvægt að þegar við erum að tala um þessi vinnumarkaðsmál þá hugsum við um þetta sem heild, þ.e. frá báðum endum; ekki bara að fólk hafi réttindi sem launafólk heldur þurfum við að tryggja að réttindin nái alla leið í raun, þannig að ef eitthvað kemur upp á, sjúkdómar eða aðrir erfiðleikar gera vart við sig, þá höfum við eitthvert kerfi sem grípur fólk. Sérstaklega í ljósi þess hversu langt og gæfuríkt, held ég megi segja, samstarf við höfum átt á Norðurlandavettvangi finnst mér alla vega svolítið grætilegt hvað þessi hlutur, þegar kemur að almannatryggingunum, hefur einhvern veginn ekki verið í nógu góðu horfi.

Það er áhugavert, sem kemur fram í máli hæstv. ráðherra, að vinnumarkaðurinn sé að breytast og við verðum kannski að fara að líta á okkur sem part af stærra svæði, þ.e. Evrópska efnahagssvæðinu. En það verður að viðurkennast að það gerir viðfangsefnið, þ.e. framfærslu fólks þegar það hefur tapað starfsorku sinni, í raun enn flóknara og enn erfiðara viðfangs. Ég veit ekki, ég mundi giska á að kannski væri auðveldara að byrja á að reyna að ná utan um þetta á vegum norræna samstarfsins.

Ég vil því hér í lok seinna andsvars míns hvetja hæstv. ráðherra til dáða og treysti henni ágætlega til þess að vilja gera vel í þessum efnum þannig að við komum — af því að það eru ekki, held ég, svo margir einstaklingar sem eru í þeirri gríðarlega erfiðu stöðu að hafa skertar greiðslur úr almannatryggingakerfinu vegna búsetu — þessu máli í farveg sem vel má við una.