144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

Norræna ráðherranefndin 2014.

611. mál
[18:50]
Horfa

ráðherra norrænna samstarfsmála (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem segja má að einkenni þetta starf er að um leið og við erum búin að ryðja einni hindrun úr vegi verður jafnvel til önnur. Það er vegna þess að kerfin okkar eru stöðugt í mótun. Við erum með mikla vinnu í gangi í ráðuneytinu hjá mér sem snýr að endurskoðun á almannatryggingakerfinu þar sem við erum að fara yfir þau réttindi sem eru til staðar núna. Þar horfum við meðal annars til þess hvernig þróunin hefur verið annars staðar á Norðurlöndunum en líka hver okkar pólitíska stefnumörkun er hér á Íslandi. Það er svo áhugavert líka, sem tengist þessu norræna samstarfi, allar þessar rannsóknir og samanburður sem við nýtum síðan til þess að þróa okkar kerfi.

Það kom meðal annars fram í skýrslu um norrænu velferðarkerfin frá finnsku rannsóknarstofnuninni að þrátt fyrir að við teljum okkur lík — fólk utan frá upplifir okkur mjög oft þannig — þá höfum við oft notað mjög ólíkar aðferðir til að ná sömu markmiðum. Ég veit að hv. þingmaður hefur lagt fram skriflega fyrirspurn um sama atriðið þannig að ég vænti þess að — (SÞÁ: Í víðara samhengi.) í víðara samhengi — geta svarað því nánar þar.