144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

Norræna ráðherranefndin 2014.

611. mál
[19:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að heyra að hv. þingmaður, þrátt fyrir trú sína á ágæti Evrópusambandsins og nokkra löngun til að fá að ganga þar inn um dyrnar, er einnig eindreginn stuðningsmaður norræns samstarfs. Ég get svo sem alveg tekið undir það með honum að í því þarf ekki að felast nein mótsögn þó að við nálgumst það kannski í ólíkri forgangsröð.

Ég held að sagan hafi alltaf sýnt að það hefur verið styrkur Norðurlandanna að eiga hvert annað að og við gætum náttúrlega vísað til nýlegrar reynslu Íslands. Auðvitað var styrkur að því að eiga Norðurlöndin að í okkar erfiðu glímu á undanförnum árum, og kannski ekki síst gott samband við Noreg, þó að ég verði að segja bara til að halda því til haga að í ræðumanni blunda nú blendnar tilfinningar í því sambandi en þær verða ekki frekar viðraðar hér af kurteisisástæðum.

Gamli skandínavisminn, já, og þær hugmyndir sem menn voru með og á köflum komnir býsna langt með, eins og miklu dýpri efnahagsleg samvinna á Norðurlöndunum, Nordek, efnahagsbandalagið. Því miður tommuðu menn ekki með það. Og menn hafa stundum í gamansömum tón sagt að framþróun norræns samstarfs hafi alltaf gerst fyrir mistök, að þegar menn fóru heim og höfðu ekki náð saman um varnarmál að sjálfsögðu og ekki um efnahagsmál þá stofnuðu menn norræna ráðherraráðið svona í sárabót. Þannig hafi þetta þróast vegna þess að menn gáfust upp á einhverju öðru. Ég held að það hafi verið mikil mistök, ég held að Norðurlöndin hefðu á margan hátt staðið miklu sterkar að vígi í öllum þessum ólgusjó hnattvæðingar og Evrópusamruna eða hvað það væri ef menn hefðu verið búnir að dýpka sitt samstarf á sviði efnahagsmála með sambærilegum hætti og þeir voru búnir að gera á sviði vinnumarkaðsmála, félagsmála og menningarmála o.s.frv. En þessi hugmynd er stundum viðruð og góður vinur okkar beggja, Jonas Gahr Störe, hefur stundum bent á þetta að ef við legðum saman kraftana þá værum við tíunda stærsta (Forseti hringir.) hagkerfi heimsins,(Gripið fram í.) níunda, tíunda, og ættum fast sæti í G20-hópnum.