144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

Norræna ráðherranefndin 2014.

611. mál
[19:12]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hennar. Eins og fram kemur í skýrslunni þá var formennskuáætlun Íslands, sem ber heitið Gróska — lífskraftur, þungamiðja norræns samstarfs síðasta árið. Það var einstaklega gaman að skila af sér formennsku þar sem lögð var áhersla á umhverfi og náttúru og þar sem Reykjavík fékk náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. Dómnefndin sagði einnig að sveitarfélagið hefði átt í samstarfi um eftirlit og verndun vatnsbóla og væri eina höfuðborg Norðurlanda sem nyti þeirra forréttinda að geta veitt ómeðhöndluðu drykkjarvatni inn á heimili borgarbúa. Ég tel þessa tengingu vera mjög góða hjá okkur.

Eins og kemur einnig fram í formennskuáætluninni Gróska — lífskraftur er lögð áhersla á Norðurlönd án hindrana og það kemur fram í framtíðarsýn ráðherraráðs Norðurlandanna. Eitt helsta viðfangsefni í norrænu samstarfi er að skapa ákjósanlegar aðstæður fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem vilja fara frjálst á milli Norðurlandanna. Ég tel einn mikilvægan punkt þar einnig vera að tryggja að innleiðing ESB-löggjafar skapi ekki nýjar stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, því að þegar við á Íslandi setjum ný lög berum við okkur saman við aðrar Norðurlandaþjóðir og byggjum okkar löggjöf oft á þeirra reynslu. Þegar um er að ræða utanaðkomandi löggjöf sem kemur kannski lengra frá og er úr dálítið öðru umhverfi en okkar þarf að taka tillit til þess.

Hér var áðan minnst aðeins á norræna landamærahindrunarráðið sem var sett á laggirnar 1. janúar á síðasta ári og það hefur staðið sig mjög vel. Það er ekkert af þeim að taka, en eins og við vitum er ekki auðvelt að leysa úr þessum hindrunum þar sem löggjöf landanna er mismunandi á ýmsum sviðum. Og eins og kemur fram í skýrslunni skortir oft vilja til að breyta löggjöf eða framkvæmd reglna. Ég vil bara brýna það fyrir þingmönnum í þessum sal að við á Íslandi vinnum vel að því og að það vanti ekki áhuga, vilja og getu hjá okkar þingmönnum til þess að breyta þessu og reyna að samræma löggjafir norrænna landa.

Í skýrslunni er rætt um verkefnið um norræna lífhagkerfið og þar undir er verkefnið ERMOND, sem snýst um að byggja upp þol og styrk vistkerfa í því skyni að gera þau betur í stakk búin til að draga úr áhrifum náttúruvár. Hér á Íslandi beinist athyglin mest að eldgosum og eldfjöllum og ég tel það hlutverk okkar Íslendinga í Norðurlandaráði að standa sérstakan vörð um Norræna eldfjallasetrið hér á landi sem sinnir mikilvægum rannsóknum sem nýtast ekki bara hér á landi heldur líka löndunum í kringum okkur í sambandi við öskufall o.fl. Fyrirkomulaginu á greiðslum til setursins hefur verið breytt og það mun vafalaust hafa einhver áhrif á starfsemi þess, en við þurfum að gæta þess að rannsóknastarfsemin sé nokkuð stöðug og áhersla sé lögð á hana, sér í lagi þegar eldgos eru í gangi hérlendis.

Í sambandi við kaflann um matvælamál vil ég sérstaklega lýsa ánægju minni með þau málþing sem voru haldin hér á landi um rekjanleika og lyfjaónæmi. Þessi málefni hafa verið mjög í brennidepli hjá norrænum þjóðum og þar sem ég sit í velferðarnefnd Norðurlandaráðs þá hefur lyfjaónæmið komið inn á borð til okkar. Ég lagði nýverið fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, um lyfjaónæmi hér á landi og svar hans var að því væri mjög vel fylgt eftir hér á landi, eftirliti með því.

Þá hefur matarsóun kannski staðið svolítið upp úr hjá mér. Ég var í kennslustund í gær þar sem ég var að fara yfir íslenskan landbúnað með nemendum í Kvennaskólanum í Reykjavík og þar komu margar spurningar í sambandi við landbúnaðinn og matarsóun, hvernig við gætum unnið að því að draga úr matarsóun. Nemendurnir voru einstaklega áhugasamir og mjög gaman að heyra um þeirra sýn og hvað þeir mundu vilja sjá gert til þess að draga úr matarsóun. Til þess að fyrirbyggja hana hefur verið í brennidepli samstarf um að draga úr matarsóun í nokkur ár og hér á landi er m.a. verkefni í gangi sem snýr að því að búa til tengslanet á Norðurlöndum til þess að vinna gegn matarsóun og auka fræðslu og styrkja vitund fólks, en þar byrjar auðvitað verkefnið, með því að fræða fólk. Matarsóun hefur neikvæð áhrif á náttúruauðlindir, fjárhag og umhverfi. Það birtist nú bara fyrir þremur, fjórum dögum frétt þar sem kom einmitt fram að búðir skipulegðu sig kannski ekki nógu vel í innkaupum og það hefði einnig áhrif á matarsóun hér á landi og yki hana í rauninni.

Árið 2013 hlaut Selina Juul náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs, árinu á undan Reykjavíkurborg, fyrir baráttu sína gegn matarsóun, en hún stofnaði neytendahreyfingu sem heitir Stöðvum sóun á mat og er talsmaður hreyfingarinnar. Hún skrifar greinar, hún fræðir fólk, kemur fram í sjónvarpi og útvarpi til að skapa vitundarvakningu um þá matarsóun sem er í gangi, því að matarsóun er ekki bara vandamál út af peningum heldur er hún líka siðferðislegt vandamál, því að við erum það mörg í þessum heimi að við eigum að geta unnið saman að því að draga úr matarsóun.

Ég fagna því einnig að við fáum þetta tækifæri síðar á árinu til þess að halda stórþing Norðurlandaráðs hér á landi. Ég tel annars nokkuð skýrt koma fram í skýrslunni að hverju hefur unnið. Ég vil, eins og fleiri hérna, þakka skrifstofunni kærlega fyrir þá vinnu sem hún hefur lagt til, því að án hennar held ég að við í starfi okkar á Íslandi værum ekki jafn vel í stakk búin og raun ber vitni.