144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

Norræna ráðherranefndin 2014.

611. mál
[19:20]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda um störf norrænu ráðherranefndarinnar. Ég vil í upphafi þakka hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur fyrir skýrslu hennar og framsetningu og störf hennar á síðasta ári verandi í forsæti fyrir norrænu ráðherranefndina. Í skýrslunni koma ágætlega fram þau verkefni sem þar hafa verið unnin og hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir þeim. Sjálfur kom ég inn í Norðurlandaráð, sem er hin hliðin á Norðurlandasamstarfinu, inn í það sem tengist þinginu, á síðasta ári, en Ísland er núna með formennskuna í Norðurlandaráði.

Ég held að ég þurfi ekki að flytja langa ræðu um það að ég er einn af þeim sem hafa alla tíð stutt norrænt samstarf og tel það gríðarlega mikilvægt og skipta mjög miklu máli að við fylgjum því vel eftir, nýtum okkur þau tengsl sem þar eru og þá sérstöðu sem Norðurlöndin hafa. Það er líka fagnaðarefni að samstarfið hefur aukist á milli norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Nú er norræna ráðherranefndin miklu stærra batterí en Norðurlandaráð, það er skrifstofa í Kaupmannahöfn fyrir báða þessa aðila og í sama húsinu sennilega yfir 100 manns ef ég veit rétt. Þar af erum við með um 15 hjá Norðurlandaráði.

Það hefur líka verið ánægjulegt að fylgjast með því að það eru öflugir ráðherrahópar í málaflokkum þar sem menn starfa saman. Meðan ég var ráðherra lagði ég alltaf áherslu á að mæta á þá fundi, mér finnst skipta gríðarlega miklu máli að rækta þetta samstarf og mér sýnist að því sé fylgt vel eftir. Menn geta gert býsna marga og skemmtilega hluti ef þeir fylgja því vel eftir.

Norðurlandaráð hefur á sama tíma verið að vinna með breyttu formi, og raunar þessi batterí saman, með því að vinna vandaðar skýrslur og taka mál á dagskrá þar sem einstaklingum, þekktum fyrrverandi ráðherrum í báðum tilfellunum sem ég ætla að nefna hér, er falið að vinna skýrslur. Annars vegar er það skýrsla um utanríkismál, sem Thorvald Stoltenberg vann og skilaði árið 2011 að ég held, og síðan skilaði Bo Könberg, fyrrverandi heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Svíþjóðar, skýrslu á síðasta ári. Báðar skýrslurnar voru unnar þannig að haft var samráð við öll Norðurlöndin og dregin fram þau áhersluatriði sem skipta mestu máli í samstarfinu. Ég hef formlega fagnað því samstarfi og þeim tillögum sem þar hafa komið fram. Lagðar voru fram 14 tillögur í heilbrigðismálum og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur með kollegum sínum á Norðurlöndunum þegar sett í farveg að framkvæma nokkrar þeirra og norræna ráherranefndin sett í það fjármagn.

Þau vinnubrögð eru til fyrirmyndar og skipta mjög miklu máli. Þar er verið að ræða samstarf á ýmsum sviðum þar sem styrkur Norðurlandanna getur nýst, þ.e. ef allir standa saman. Það eru fáir sem hagnast meira á því en Íslendingar að vera í slíku samstarfi þar sem við sem 330 þúsund manna þjóð erum í samstarfi með um 25 milljóna svæði.

Það sem hefur verið rætt töluvert í norræna samstarfinu á síðasta ári, og er eitt verkefnanna sem norræna ráðherranefndin verður að taka á og Norðurlandaráð einnig, eru tengsl við almenning, þ.e. hvernig við getum kynnt Norðurlandasamstarfið fyrir almenningi þannig að menn geri sér grein fyrir því að það skiptir máli. Það er oft svolítið langt frá þeim ákvörðunum sem þar eru teknar yfir til einstaka borgara á Norðurlöndum. Þar hafa norrænu félögin skipt máli. Þau eiga afmæli á þessu ári og er ætlunin að halda upp á það með þeim, en það er einmitt eitt af þeim atriðum sem eru í formannsáætlun Norðurlandaráðsins, íslensku formannsáætluninni, að efla tengsl við almennu félögin sem vinna á Norðurlandagrundvelli. Þó að ég nefni hér norrænu félögin eru gríðarlega mörg félög, eins og t.d. sjúklingafélög alls konar, verkalýðsfélög og fleiri, sem starfa á norrænum vettvangi og gegna miklu hlutverki þar.

Eitt af því sem búið er að boða í tengslum við Norræna húsið í Reykjavík er að halda svokallað „folkemöde“ eða stjórnmálahátíð sem er þegar komin hefð fyrir á Norðurlöndunum. Þar eru haldnar sumarhátíðir þar sem stjórnmálamenn og ýmis hagsmunasamtök eða hreyfingar standa sameiginlega að hátíð og kynningu og umræðu þar sem lögð er áhersla á að stjórnmálamenn komist út meðal almennings og gefi færi á sér til viðræðna með bæði formlegum hætti og spjalli og samveru.

Á hinum Norðurlöndunum verður þetta víðast haldið úti á landi og vonandi verður það þróunin hér að menn komi þessu á sem varanlegri hátíð, sem verður þá haldin úti á landi og menn nota hluta af sumarfríinu sínu í að vera á slíkri hátíð. Þessi hátíð er áætluð í Vatnsmýrinni 11.–13. júní næstkomandi.

Eitt af stóru verkefnunum sem hafa þegar verið nefnd umræðunni hér er vinnan í sambandi við að samræma framkvæmdir á ýmsum lagabálkum, því að þrátt fyrir að við séum í norrænu samstarfi og menn vinni þar mjög náið saman eru sum Norðurlandanna í Evrópusambandinu. Það eru alltaf að koma upp, vegna þess að við höfum ekki samræmt löggjöfina á Norðurlöndunum, landamæra- eða stjórnsýsluhindranir þar sem árekstrar verða í framkvæmd. Það hefur ekki hvað síst bitnað á ýmsum félagsmálum eins og örorkugreiðslum, fæðingarorlofsmálum eða fæðingarstyrkjum o.s.frv. Gefin hefur verið út heil bók og stofnað sérstakt landamærahindrunarráð til að vinna á þessu og þetta er eitt af þeim verkefnum sem við verðum að vinna hressilega á næstunni. Ég hvet samstarfsráðherrann, hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur til að vinna ötullega að því. Ég veit að í forustunni í þessu landamærahindrunarráði er Siv Friðleifsdóttir, sem þekkir þennan málaflokk gríðarlega vel og er öflug hvað þetta varðar.

Eitt af því sem kemur fram í skýrslunni og kom fram í formennskuáætlun Svíanna var markaðssetning á Norðurlöndum, kynning á því sem kallað hefur verið vörumerki Norðurlandanna, þ.e. „brand“ Norðurlandanna. Þar hafa menn vakið athygli á því sem hefur kannski styrkst, ekki hvað síst eftir hrun, það hversu öflug Norðurlöndin eru á flestum mælikvörðum í alheimssamhengi, hvort sem það eru jafnréttismál eða alls konar félagsleg mál. Menn eru farnir að átta sig á því að Norðurlöndin sem slík eru orðin þekkt fyrir norræna módelið og spurningin er hvernig við nýtum okkur það.

Það sem ég hef aftur móti haft áhyggjur af er hvort íslensk stjórnvöld hafi raunverulegan vilja til að vera með norræna módelið. Þegar ég segi þetta er það vegna þess að þegar maður kíkir á sérkenni norræna módelsins, sem náðst hefur þverpólitísk samstaða um, eru þar ýmsir þættir eins og félagslega réttindi, það er auðvitað jafnrétti og jafnræði — og ekki ætla ég að efast um vilja núverandi stjórnvalda til að fylgja því eftir — og félagslegur réttur einstaklinga. Það er líka opinber þjónusta og jafnt aðgengi allra að heilsugæslu og sjúkrahúsþjónustu, menntun og sérsniðin þjónusta fyrir sérstaka hópa sem og tekjutengdar félagslegar tryggingar. Síðan er það náttúrlega lýðræðishlutverkið og mikilvægi hlutverks ríkisins og traust og tiltrú á opinberum aðilum, sem skiptir gríðarlega miklu máli, og lítil spilling, að vera með mikið gegnsæi þar sem við verjum okkur sem það land sem berst gegn spillingu og berst fyrir því að vera þekkt í heiminum fyrir litla spillingu.

Þarna þurfum við að gæta okkar. Á sama tíma er svo fjármálahlutinn þannig að þetta er auðvitað opið hagkerfi en það eru háir skattar og há opinber útgjöld, mikil samneysla á öllum Norðurlöndunum og um það er samstaða á hinum Norðurlöndunum. Mér finnst núverandi ríkisstjórn vera á leið út úr því með því að minnka samneysluna og þá tala ég um heildina, ég er ekki að ásaka hæstv. ráðherra sem hér leggur fram skýrslu um að standa fyrir því, þvert á móti. En þarna þurfum við að verja okkur.

Opinberar fjárfestingar í rannsóknum og menntun eru gríðarlega ofarlega hjá öllum þessum aðilum. Það er virkt samstarf á milli launaþegahreyfinga og kjarasamningar gjarnan unnir í samstarfi við stjórnvöld. Það er virk vinnumarkaðspólitík og menn standa líka að því að verja byggðapólitík o.s.frv. Það er fullt af hlutum sem hafa einkennt Norðurlöndin og hjálpað þeim í gegnum erfiðleika og sýnt þann styrk sem þau hafa sem mér finnst núverandi stjórnvöld vera að vinna gegn, ekki í formi eða orði heldur í framkvæmd. Ég hvet samstarfsráðherra Norðurlandanna til að gæta vel að því og taka þátt í umræðunni um hvar við viljum vera í samneyslu. Hvað viljum við hafa sem sameiginlega þjónustu? Viljum við að ríkið sé ábyrgt og standi fyrir obbanum af félagslegu þjónustunni, séstaklega heilsugæslu, sjúkrahúsþjónustu og menntun?

Ég vil að þau skilaboð séu skýr. Þannig getur Ísland með fullu stolti verið hluti af norræna módelinu, styrkt okkur í gegnum það góða vörumerki sem Norðurlöndin eru, verið öflugt efnahagssvæði þar sem allar þjóðirnar standa saman, haldið áfram að vera í forustu í heiminum fyrir öfluga velferðarstefnu og velferðarþjónustu og þar að auki að verið í fremstu röð, eins og við höfum verið undanfarin ár, í jafnréttismálum og mannréttindamálum. Þetta er það vörumerki sem ég vil sjá íslensku þjóðina hafa og í stuðningi með norrænu ríkjunum.

Við höfum tilhneigingu til að fara í þá átt að segja: Við viljum lækka skatta, færa meira til einstaklinganna, draga úr samneyslu. Í raun vinna stjórnvöld eftir brauðmolakenningunni sem er andstaða norræna módelsins, að lækka skatta, auka ákvörðunartöku einstaklinga, hækka gjöld á einstaklinga vegna þess að þeir ráðstafa peningunum sjálfir. Þetta er ekki norræna módelið. Þetta er frjálshyggjustefna frá Bandaríkjunum og hluta af Bretlandi og víðar í heiminum.

Ég vildi koma því að í umræðunni, eins mikill stuðningsmaður Norðurlandasamstarfs og ég er. Við megum ekki glutra þessu niður með því að vera með hægri stefnu eða frjálshyggjustefnu innan Norðurlandanna. Það er að fara út úr norræna módelinu yfir í það sem við höfum síst viljað, eins og ameríska kerfið er m.a. í heilbrigðismálum og menntamálum.

Aðeins í lokin. Það eru ákveðin önnur hættumerki sem við þurfum að taka tillit til í sambandi við Norðurlandasamstarf. Við höfum séð að norrænu málin hafa verið að gefa eftir á Íslandi. Mér er sagt að núna sé nánast enginn að læra til dönskukennslu í skólum landsins. Við finnum það í norræna samstarfinu að þörfin fyrir túlkaþjónustu eykst. Í sjálfu sér hef ég alls enga athugasemd við að menn tali íslensku í norrænu samstarfi, vegna þess að við höfum skuldbundið okkur til að túlka fram og til baka á milli Norðurlandamálanna, en það væri mikil afturför ef norrænt samstarf færi yfir í ensku. Þess vegna held ég að við þurfum að styrkja okkur í því að viðhalda stöðu norrænna mála, ekki hvað síst vegna þess að aftur, getur maður sagt, eru menn farnir að sækja menntun til Norðurlandanna, í auknum mæli. Á tímabili var mikið farið til Bandaríkjanna, Þýskalands og Bretlands. Það var síðan orðið það dýrt að menn nýttu sér að geta stundað nám í opinberum skólum á hinum Norðurlöndunum fyrir miklu minni fjárhæðir eða jafnvel engin skólagjöld, þannig nýttum við okkur menntakerfi þeirra og gerum enn. Þar er langstærsti hópur þeirra sem er í framhaldsnámi, sérstaklega í Danmörku og Svíþjóð. Mér finnst að við eigum að miða við að auk íslenskunnar verði eitt af málum okkar, við viljum auðvitað að íslenskir krakkar læri mörg tungumál, Norðurlandamál, fyrir utan þá ensku og eitthvert annað mál, hvort sem það er spænska, franska eða eitthvað annað.

Ég vil þakka þessa skýrslu og þakka hæstv. samstarfsráðherra fyrir mjög góð störf. Ég fylgdist með störfum hennar og fleiri ráðherra á Norðurlandaráðsþinginu í Stokkhólmi og gat verið stoltur af langflestu sem þar kom fram af hálfu ráðherra. Ég var ekki með neina athugasemd og gat stoltur fylgst með hæstv. samstarfsráðherra.