144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

Norræna ráðherranefndin 2014.

611. mál
[19:34]
Horfa

ráðherra norrænna samstarfsmála (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir umræðuna um skýrsluna og umræðuna um norrænt samstarf á síðasta ári.

Svo að ég fari stuttlega í gegnum það sem kom fram í máli ýmissa hér í umræðunni þá geti ég algjörlega tekið undir það hversu mikilvægt er að Norðurlöndin komi fram sameiginlega á alþjóðavettvangi. Ég er sjálf tiltölulega nýlega komin úr ferð til New York á kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna þar sem Norðurlöndin mættu, við áttum fundi og vorum með sameiginlega viðburði. Það er mjög áberandi, eins og í jafnréttismálum, hvað Norðurlöndin vinna vel saman og það er tekið eftir því hvað við erum samstæð í þessum málum. Við finnum líka að þegar við beitum okkur er svo sannarlega hlustað á okkur þrátt fyrir að hvert og eitt okkar, ekki bara Ísland, telst væntanlega vera smáríki á heimsmælikvarða. Þetta held ég að staðfesti kannski það sem gamli kennarinn minn, sem féll nú frá fyrir stuttu, Ingjaldur Hannibalsson, talaði um þegar ég lærði alþjóðamarkaðsfræði hjá honum. Hann sagði að reynsla hans að minnsta kosti af alþjóðlegu samstarfi væri sú að þeir sem væru best undirbúnir þegar þeir mættu á fundina og væru tilbúnir til þess að tjá sig væru oft þeir sem hefðu kannski mest áhrif á það hvernig málum væri á endanum landað, en ekki endilega það hversu margir byggju í því landi sem viðkomandi kæmi frá. Það hjálpar hins vegar þegar við beitum okkur líka með því að leggja fjármuni í þau málefni sem við teljum skipta máli.

Annað atriði sem var nefnt hérna líka fann ég einmitt mjög mikið fyrir í umræðunni á síðasta ári, þar sem við vorum að skoða norrænt samstarf, hvernig norræna ráðherranefndin vinnur og hvernig heimurinn, má segja, upplifir okkur og fyrir hvað við ætlum að standa. Það sem er svo gífurlega mikilvægt að mínu mati, og ég lagði mjög mikla áherslu á það við öll þau tækifæri sem ég fékk, eru tengsl við almenning. Hér var nefnt að við hefðum verið að skera niður í norrænu samstarfi. Nú liggur niðurstaða fyrir um að við höfum alla vega ekki í hyggju að halda því áfram og höfum dregið úr þeim áformum sem áður lágu fyrir. En ef fólk, íbúar Norðurlandanna sem við vinnum fyrir, ef borgararnir finna ekki fyrir því sjálfir á eigin skinni hversu mikilvægt norrænt samstarf er, hvað það skiptir miklu máli dags daglega fyrir möguleika okkar og tækifæri til að gera Norðurlöndin enn þá sterkari og enn þá betri, þá mun molna undan norrænu samstarfi. Þess vegna er svo mikilvægt að við komum því á framfæri með öllum mögulegum leiðum sem við höfum sem stjórnmálamenn, sem þátttakendur í norrænu samstarfi, að við látum vita af öllum þeim góðu verkefnum sem við vinnum að og gera það að verkum — og ég trúi svo sannarlega á að við vinnum okkur jafnt og þétt að þeirri framtíðarsýn sem ég hef — að það eigi að vera jafn auðvelt að flytja frá Reykjavík til Stokkhólms og frá Reykjavík til Hafnarfjarðar.

Þetta er stórt atriði. En við vinnum saman í atvinnumálum, við vinnum saman í menntamálum og hér voru nefndir þeir gífurlega miklu möguleikar sem við höfum haft á að sækja okkur menntun til Norðurlandanna. Ég held að það sé í rauninni ekki hægt að setja verðmiða á þá þekkingu sem það hefur skilað íslensku samfélagi. Þessu verðum við að halda áfram að koma á framfæri.

Það var líka nefnt í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, ég held ég sé örugglega að muna rétt, að í sumar er ætlunin að vera með sambærilega hátíð og Almedals-vikuna, það verður fyrsti sprotinn í því halda okkar eigin Almedals-viku, sem er upphaflega hátíð í Svíþjóð en má finna núna í Danmörku, í Noregi og í Finnlandi og nú loksins á Íslandi líka. Það var einkar ánægjulegt að norræna ráðherranefndin sá sér fært að styðja sérstaklega við hátíðina og ég vona svo sannarlega að allir þeir sem sitja á þingi og allir þeir sem eru virkir í stjórnmálum og allir þeir sem hafa áhuga á samfélaginu, starfa í frjálsum félagasamtökum, innan menningargeirans, innan allra geira samfélagsins, komi og ræði um hvers konar samfélag við viljum hafa á Íslandi. Það er hugsunin með Almedals-vikunni að fólk geti átt milliliðalaust samtal um það hvernig við viljum hafa samfélag okkar.

Þá vil ég líka rifja upp að við norrænu samstarfsráðherrarnir fengum á fund okkar í sumar einn helsta sérfræðing heims í því sem er kallað „branding“ eða ímynd landa, Simon Anholt. Hann kom með rosalega sterk skilaboð inn á þann fund. Hann sagði einfaldlega: Það er ekki hægt að kaupa sér ímynd, það er ekki hægt að búa hana bara einhvern veginn til. Ef við viljum vera með jákvæða ímynd þá þurfum við bara að halda áfram að vera það sem við erum, norræn. Það væri besta leiðin til að koma okkur á framfæri. Vera enn þá meira norræn, voru skilaboðin. Það þýðir í mínum huga að við viljum enn þá meira norrænt samstarf, því að það er eitt af því sem gerir Norðurlöndin jafn góð og þau eru eða að jafn góðum samfélögum og ég tel þau vera.

Eitt af því sem rætt var hér var munur á milli Norðurlandanna. og það er alveg rétt. Við höfum hvert og eitt náð árangri þegar kemur að því að búa til góð samfélög, en við höfum ekki endilega gert það með sama hætti. Þó að talað sé um hið norræna velferðarmódel eða norræna módelið af ýmsum, bæði þeim sem búa hér en sérstaklega þeim sem horfa á okkur utan frá, þá kom það mjög skýrt fram t.d. í ETLA-skýrslunni, sem ég nefndi í fyrri ræðu og andsvörum og var rædd á fundi vinnumarkaðsráðherranna, að Norðurlöndin hafa valið mismunandi leiðir. Þegar menn tala um hið hefðbundna norræna velferðarmódel eiga þeir kannski fyrst og fremst við Noreg, Svíþjóð og Danmörk á meðan Ísland og Finnland skera sig úr. Ég held að það sé líka áhugavert að horfa á mismunandi pólitískar áherslur við uppbyggingu á velferðarkerfunum, en öll þessi lönd hafa hins vegar náð árangri og búið til góð samfélög fyrir sína þegna. Í ljósi þeirra áhyggna sem komu fram í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar — og ég hugsaði að það væri nú skemmtilegt ef það kæmi smápólitík inn í umræðuna um norrænt samstarf — þá held ég að þær séu óþarfar, það hafi einmitt endurspeglast í áherslum okkar núna, t.d. við fjárlagagerðina, að við höfum verið að setja mjög mikla og aukna fjármuni til einmitt velferðarmála, til heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins og inn í almannatryggingar, félagsmálin. Og ef það er norrænt þá held ég að við getum sagt að við Íslendingar eigum það sameiginlegt með öðrum Norðurlandaþjóðum að vilja vera með öflugt velferðarkerfi.

Ég vil síðan taka undir að það er áhyggjuefni að sjá minnkandi áhuga á norrænu tungumálunum. Ég hef tekið málið upp við menntamálaráðherra og núna hefur verið tekin ákvörðun um að skipa sérstakan starfshóp um kennsluna annars vegar og hins vegar um túlkun og framtíð náms í túlkun við Háskóla Íslands. Í mínum huga er ómetanlegt að búa að því að hafa lært dönsku í grunnskóla og framhaldsskóla og lært síðan við sænskan háskóla. Maður finnur hversu gott er að búa að þessu og ég tel að það sé mjög mikilvægt að við tryggjum að börn okkar og unglingar hafi möguleika á því að læra norræn tungumál. Það nýtist allri þjóðinni, þetta eru frændur okkar og nánustu samstarfsmenn og það er gott að eiga í norrænu samstarfi.