144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

Norræna ráðherranefndin 2014.

611. mál
[19:46]
Horfa

ráðherra norrænna samstarfsmála (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þm. Guðbjartur Hannesson hafi ekki tekið það sem ég sagði sem gagnrýni. Ég er mjög ánægð að fá pólitíkina inn í umræðuna um norrænt samstarf. Ég hef lagt sérstaka áherslu á það í allri okkar vinnu á síðasta ári að auka pólitíkina í starfi norrænu ráðherranefndarinnar, vegna þess að pólitík er bara það hvernig við viljum hafa samfélag okkar. Við þurfum að ræða það og vera óhrædd við að takast á.

Maður hefur séð í starfi Norðurlandaráðs að menn eru farnir að kjósa. Það var hálfgert tabú að mál væru leidd til lykta, eins og hv. þingmaður sagðir, á lýðræðislegan hátt, mismunandi skoðanir á hápólitískum málum. Sumir hafa haldið því fram að hið svokallaða „konsensus“-prinsipp, sem felur í sér að allir þurfi að vera sammála innan ráðherranefndarinnar, sé ákveðinn baggi á samstarfinu. Ég tel svo ekki vera en hins vegar held ég að mjög mikilvægt sé að menn tjái ólíkar skoðanir og reyni síðan að tala sig niður á ákveðna niðurstöðu.

Varðandi stöðuna hér innan lands held ég að við séum öll sammála um mikilvægi velferðarinnar. Það er hins vegar alveg rétt að þessi ríkisstjórn hefur ekki titlað sig á sambærilegan hátt og fyrri ríkisstjórn. Ef menn horfa ekki aðeins á orðin eða það sem menn kalla sig held ég þó að við getum örugglega verið sammála um að við höfum svo sannarlega lagt áherslu á að setja aukna fjármuni í velferðarkerfið og menntakerfið og það er eitthvað sem ég tel mjög norrænt. Ég held að ef við Norðurlandabúar hittum til dæmis Bandaríkjamenn fyndist okkur öllum saman stórfurðulegt að þeir skuli til að mynda ekki vilja heilbrigðistryggingar, eins og helmingur þeirrar þjóðar virðist ekki gera.