144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

málefni Aflsins á Akureyri.

[15:29]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar enn og aftur að gera málefni Aflsins á Akureyri að umfjöllunarefni hér í ræðustól og eiga enn eitt samtalið við hæstv. félagsmálaráðherra vegna þess. Aflið er samtök þolenda heimilis- og kynferðisofbeldis og hefur verið starfandi í 11 ár. Samtökin hafa fengið mjög lítinn stuðning frá ríkinu, fengið kannski nokkrar milljónir á ári, mest held ég 4 milljónir en fengu reyndar ágætisstuðning þegar farið var í átak hjá síðustu ríkisstjórn.

Það er gríðarlega mikil sjálfboðavinna sem fer fram þarna og enginn velkist í vafa um að samtökin eru mjög mikilvæg í samvinnu og við getum sagt að lögreglan á Akureyri, sjúkrahúsið, bráðadeildin, geðdeildin og Kvennaathvarfið jafnvel hafi staðfest mikilvægi samtakanna á Akureyri. Nú ber svo við að í ár munu þau fá 3 milljónir frá ríkinu. Mér reiknast til að það séu um 2% þess fjármagns sem fer í þennan málaflokk. Þá er ég að tala um Kvennaathvarfið og Stígamót í Reykjavík, Drekaslóð og Blátt áfram. Ég skil ekki hvernig hæstv. ráðherra getur réttlætt að samtök eins og Aflið fái 3 milljónir. Það fóru fram hjá okkur í fjárlaganefnd einhverjar fjárveitingar í minni hlutanum í reiðdeildina í Hólaskóla upp á 40 milljónir, sem enginn bað um. Málefni Aflsins hafa verið rædd í fjárlaganefnd fram og til baka og í þingsal. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Finnst henni þetta sanngjarnt? Finnst henni 3 milljónir eðlilegt framlag til samtaka eins og Aflsins? Ég geng út frá því að hún hafi lesið grein sem Sóley Björk Stefánsdóttir, gjaldkeri Aflsins, skrifaði í Kjarnann sem var mjög góð.