144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

málefni Aflsins á Akureyri.

[15:34]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mér sýnist ég eiga eftir að koma fimm sinnum í viðbót upp í þennan ræðustól til að ræða nákvæmlega þetta sama mál, því að ég fæ engin svör sem mér finnst vera eitthvert vit í. Ef það er eitthvað að gæðum þjónustunnar hjá Aflinu finnst mér að það eigi bara að segja það. Staðan er þannig að Aflið hefur ekki efni á því að ráða starfsmann, þeir hafa ekki einu sinni efni á því að ráða starfsmann í hálft starf. Vissulega getur það komið niður á gæðum starfsins. Ég vil líka segja að stjórnmál snúast um forgangsröðun, forgangsröðun á peningum. Ég trúi því ekki að ríkið ætli að setja 3 milljónir í Aflið í ár, ég trúi ekki að það sé niðurstaðan. Ég skildi ekki helminginn af því sem var sagt hérna. Ég vil fá svar við því hvort það sé afstaða ráðuneytisins og hæstv. ráðherra að setja 3 milljónir í Aflið í ár. Það er bara þannig.