144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

ívilnunarsamningur við Matorku.

[15:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og forseti kynnti heitir þessi dagskrárliður Sérstök umræða og það er vel við hæfi því að það er vægast sagt sérstakt mál sem við höfum óskað eftir sérstakri umræðu um. Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra um þennan stórfurðulega ívilnunarsamning við fyrirtækið Matorku og með hvaða hætti ráðherrann réttlætir þá gjörð, hvernig á því stendur að gerður er af ráðherranum ívilnunarsamningur sem varðar 400 og eitthvað milljónir, upp undir 700 milljónir eftir því hvernig túlkað er, ekki með fyrirvara um fjárveitingar eins og þekkist heldur með fyrirvara um að lög verði samþykkt á Alþingi, þ.e. ekki eftir neinum gildandi lögum. Hvernig leyfir ráðherrann sér að gera samninga um veruleg fjárframlög úr ríkissjóði án þess að það sé á grundvelli gildandi laga? Hefur ráðherrann gert aðra samninga án þess að hafa fyrir því gildandi lög og bara sett fyrirvara um að Alþingi samþykki lög þar að lútandi síðar? Þá væri gott að fá upplýsingar um það.

Hvers vegna fær fyrirtækið Matorka þessa sérmeðferð hjá ráðherranum? Augljóslega er það sérmeðferð vegna þess að þeir samningar sem gerðir hafa verið við tvo aðra aðila, Thorsil og Algalíf, eru lagðir fyrir þingið vegna þess að það eru engin lög í gildi. Ráðherrann tekur alveg sérstaka ákvörðun um að fara öðruvísi með Matorku en með Thorsil og Algalíf. Hvers vegna þessa sérmeðferð á Matorku, hæstv. ráðherra? Hefði ekki þvert á móti vegna hinna margvíslegu tengsla fyrirtækisins við Sjálfstæðisflokkinn verið full ástæða til að fara sérstaklega varlega og leggja einmitt sérstaklega slíkan samning undir þingið en gera hann ekki bara með fyrirvara um að þingið samþykki einhver lög einhvern tímann í framtíðinni? Hefur ráðherrann þá kannski kynnt sér þetta fyrirtæki svona sérstaklega vel? Getur þá ráðherrann upplýst okkur um það hversu mikla styrki úr opinberum sjóðum það hefur fengið til ýmissa verkefna og hvernig þau verkefni hafa gengið? Hafa til dæmis fjárframlög í önnur eldisverkefni á vegum fyrirtækisins skilað þeim árangri sem að var stefnt? Hvernig skýrir ráðherrann það að við séum að greiða sérstaklega fyrir starfsemi af þessu tagi í næsta nágrenni höfuðborgarinnar? Ég fæ illa séð að um nokkra nýsköpun sé að ræða. Hér er vissulega verið að nota heitt affallsvatn en það er líka gert annars staðar. Hér á að ala bleikju, en það gera líka aðrir. Hvaða sérstöku skilyrði eru fyrir hendi sem kalla á mörg hundruð milljóna króna framlög úr ríkissjóði til að koma á fót fyrirtæki sem virðist ekki vera að gera neitt nýtt og er í samkeppni við aðra? Þýðir það að við eigum að styðja verkefni almennt úr ríkissjóði í kringum höfuðborgina í þeim kjördæmum sem ná inn á byggðakortið sem eru í samkeppni við fyrirtæki sem starfa fyrir í landinu og eru ekki að gera neitt nýtt? Eða hvernig er þetta eiginlega hugsað hjá hæstv. ráðherra?

Getur ráðherrann upplýst okkur um hámarkið vegna þess að það eru ýmsar takmarkanir á því hvað er heimilt, jafnvel ef lögin yrðu samþykkt óbreytt frá ráðherranum? Þar er gert ráð fyrir því að það sé að hámarki þriðjungur sem hægt er að fá í svona stuðning. Ég fæ ekki betur séð en að það hámark sé að fullu nýtt og spyr hvort það sé ekki verið að nýta það gott betur því að beini stuðningurinn í gegnum skattaðgerðir og slíkt er 425 milljónir, sem eru 35% hámarkið, en þar fyrir utan á fyrirtækið að fá þjálfunarstyrk upp á að minnsta kosti 50 millj. kr. Er þá ekki farið, ekki bara upp að hámarkinu, heldur umfram það hámark sem að var stefnt? Og hvernig er með þessar tölur um heimsmarkaðinn? (Forseti hringir.) Með hvaða hætti hafa þær verið rýndar? Er hér um það að ræða að heimsmarkaðurinn sé 6 þús. … (Forseti hringir.) eins og … fiskeldisfyrirtækja segja eða er hann 12 þús. … eins og …(Forseti hringir.)