144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

ívilnunarsamningur við Matorku.

[15:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum um ívilnanir og ákveðið fyrirtæki sem hefur verið gagnrýnt að hafi fengið ívilnunarsamning af hálfu hæstv. ráðherra. Ég vil í fyrsta lagi segja að ég tel mjög til bóta að hafa rammalöggjöf um ívilnanir og finnst að það eigi að halda áfram að ljúka því verki og klára það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu í þeim efnum. Menn eiga að geta treyst því að þar sé byggt á jafnræði og samkeppnisreglum sem eru undirstaða þess í þessari löggjöf varðandi samkeppnisreglur sem eru í gildi innan ESB um slíkar ívilnanir.

Við eigum að sjálfsögðu að taka alvarlega þá gagnrýni sem hefur komið fram á þennan ákveðna samning og skoða vel hvort eitthvað í núverandi löggjöf sem féll úr gildi árið 2013 og þeirri sem við erum að vinna núna á þingi mætti bæta til að koma í veg fyrir eitthvað sem veki upp efasemdir um hvort fyrirtæki sitji við sama borð. Ef svo er þurfum við að bæta úr því.

Vissulega er mjög umhugsunarvert með þetta ákveðna fyrirtæki hvað þar er nákvæmlega nýtt á ferðinni miðað við önnur sambærileg fyrirtæki sem eru fyrir í landinu, sem eru um 12 talsins, og hvaða nýjungar réttlæti þennan stuðning. Ég mun koma betur að því í seinni ræðu hvað mér finnst um það mál allt saman.