144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

ívilnunarsamningur við Matorku.

[15:50]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa sérstöku umræðu um Matorku og þessa ívilnunarsamninga en árétta að í mínum huga eigum við að vera að ræða hér sérstaklega rammasamninginn en ekki þetta sérstaka fyrirtæki per se. Það dæmi sem við sjáum í þeim samningi sem á að gera við það fyrirtæki ljóstrar þó upp vanköntum í ívilnunum yfir höfuð og þess vegna er málið auðvitað rætt á þeim forsendum. Ég ítreka að það er ekkert við þetta fyrirtæki í sjálfu sér, það stendur sig örugglega vel og á ekki að vera hér aðalatriðið, heldur lagaramminn sem þessi samningur byggir á og er ekki í lagi. Hann býður beinlínis upp á inngrip inn á markaði sem hafa verið frjálsir. Fyrirtæki hafa þegar þurft að byggja sig upp í gegnum virka samkeppni, þurft að fá fyrirgreiðslur hjá sínum bönkum en ekki sérstaklega bankað upp á hjá ríkinu og fengið allt að 770 millj. kr. skattafslátt og afslátt af gjöldum. Það er meginatriðið og það er í mínum huga ekki í lagi.

Svo eru líka byggðasjónarmið þarna inni. Næstum öll fyrirtæki af ákveðinni stærð geta sótt um þessar ívilnanir svo lengi sem þau eru ekki á höfuðborgarsvæðinu. Í því sambandi má auðvitað nefna að einhverra hluta vegna hafa í tíð fyrri ríkisstjórnar og þessarar ríkisstjórnar langflestir samningar farið til Suðurlands sem er í hugum einhverra þá brothætt byggð sem þarf að efla, eða hvað? (Gripið fram í.) Þetta gengur ekki upp í mínum huga.

Ég sé að tími minn er að renna út en ég mun í minni seinni ræðu fara betur yfir rammalöggjöfina og fjalla um það (Forseti hringir.) hvernig hún gengur ekki upp.