144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

ívilnunarsamningur við Matorku.

[15:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Með setningu laga nr. 99/2010 var stigið ágætt skref í þá átt að efla nýfjárfestingu og auka nýsköpun og atvinnuþróun, ekki veitti af. Þau lög runnu út um áramótin 2013, rétt eftir að fyrirtækið sem hér er til umræðu sótti um ívilnun. Það sem hafa þarf í huga þegar svona samningar eru gerðir er í fyrsta lagi að þeir standist þau lög sem í gildi eru eða eins og í þessu tilfelli þar sem beðið er eftir að lagasetning renni í gegnum Alþingi og væntanlega verður að því gætt að samningurinn standist þá lagasetningu. Í öðru lagi verður að gæta að því að þeir samningar sem gerðir eru séu í fullu samræmi við þá samninga sem áður hafi verið gerðir. Samningurinn sem hér um ræðir er í öllum atriðum nákvæmlega eins upp settur og allir ívilnunarsamningar sem að minnsta kosti sá sem hér stendur hefur séð, að undanteknum Bakkasamningnum sem er með öllu meiri ívilnunum. Í þriðja lagi þarf að gæta þess að jafnræðis sé gætt meðal fyrirtækja. Það verður nú að segjast eins og er að það er illa fyrir okkur komið ef við ætlum að fara að búa okkur til lista yfir æskilega og óæskilega þátttakendur í atvinnulífi landsmanna og láta hann hafa áhrif á það hvernig við afgreiðum mál á þinginu. Sá sem hér stendur hefur ekki áhuga á slíku.

Auðvitað er það svo að þau fyrirtæki sem njóta ívilnana eða sérstakra ráðstafana af hálfu ríkissjóðs verða ekki alltaf farsæl. Við þekkjum dæmi um fyrirtæki sem fékk mjög góða ívilnun á sínum tíma af hendi síðustu ríkisstjórnar sem heitir Marmeti og lifði mjög skammt. Þetta er áhætta sem tekin er og við gerum það með opnum huga, en aðalatriðið er (Forseti hringir.) að við förum ekki að slá á fingur þeirra sem vilja koma hér að nýsköpun (Forseti hringir.) og koma á starfsemi á svæðum (Forseti hringir.) þar sem atvinnuleysi er viðvarandi.