144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

ívilnunarsamningur við Matorku.

[15:56]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Á Alþingi og í atvinnuveganefnd er til vinnslu fyrir 3. umr. ný lög um ívilnanir. Í framhaldi af þeirri vinnu gaus upp þessi samningur við Matorku og varð að miklu umræðuefni og kallaði fram mikla opinbera umræðu og margar spurningar hafa vaknað vegna hans. Eins og hér hefur komið fram er þetta eini samningurinn sem er ekki lagður fyrir Alþingi meðan engin lög eru í gildi. Hér hefur verið talað um samninga við Algalíf og Thorsil og Bakkasamninginn og fleira, allt það kom hingað inn og Alþingi ræddi þau mál og nefndin fór í gegnum þau. Þannig að í raun og veru kemur Matorkusamningurinn bakdyramegin til umfjöllunar eins og ég sagði í nefndinni. Vilja menn hafa það í lögum að ráðherra geti gert svona samning án þess að taka áður tillit til þess hver staðan er? Í dag er næg framleiðslugeta hjá þeim sem fyrir eru fyrir meiri framleiðslu á bleikju og hún má heldur ekki vera of mikil vegna þess að þá hrynja markaðir. Þess vegna kemur þessi umræða upp og er eðlilegt að margar spurningar vakni, það hefur einmitt gerst.

Síðan var það auðvitað tortryggilegt að hæstv. ráðherrann neitaði að koma á fund atvinnuveganefndar til að útskýra þennan samning, ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur þrisvar, en kom í fjórða skipti eftir að beðið var ásjár forseta Alþingis. Þetta er staðan sem er uppi og atvinnuveganefnd þarf að ræða málið frekar og ræðir það á morgun m.a. við Íslandsstofu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í tengingu Matorku við Matís, hvernig hún er og e.t.v. líka Rannís og síðast en ekki síst að spyrja hvort fyrirtækið Matorka hafi fengið einhverja styrki úr opinberum eða hálfopinberum sjóðum undanfarin ár sem við alþingismenn (Forseti hringir.) í raun og veru vitum ekki um en þurfum að vita um (Forseti hringir.) til að gera okkur heildarmynd af öllu málinu vegna þess að ívilnunarlögin (Forseti hringir.) eru númer eitt, tvö og þrjú sem við þurfum að vinna og klára á Alþingi.