144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

ívilnunarsamningur við Matorku.

[16:08]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég ætla að ramma spurningu mína til ráðherrans skýrar inn. Ég hélt að það væri grunnstefna Sjálfstæðisflokksins að þeir sem vilja komast áfram í samfélaginu eigi að gera það á eigin forsendum en ekki með því að skapa sér óeðlilegt forskot eins og virðist hafa gerst í þessu máli með því að sitja báðum megin við borðið.

Síðan langar mig í þessu samhengi öllu að benda á að eitt af höfuðvandamálum og gróðrarstía spillingar er skortur á gagnsæi varðandi skrif á lögum í ráðuneytunum. Ég held að það væri til mikilla bóta að auka gagnsæi og legg til að það verði gert til að fyrirbyggja að svona mál komi upp. Mig langar að heyra viðhorf ráðherrans til þess hvort ekki sé tilefni til að auðvelda okkur að sjá hver skrifar nákvæmlega hvaða lagabókstaf í þeim lögum sem eru unnin í ráðuneytunum. Ég held að það sé mjög mikilvægt af því að það hefur komið fram, ekki síst í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að bankamenn komu oft að lagasetningu í tengslum við bankana. Það hefur verið óskað eftir því að aðilar í alls konar mismunandi geirum sem hafa beina hagsmuni af því að lögin séu með ákveðnum hætti veiti ráðgjöf við skrif á lögum í ráðuneytunum. Mér þætti það í anda nýrra og vonandi breyttra tíma að við þingmenn og almenningur allur fengjum að vita hver skrifar hvað í lögunum.