144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

ívilnunarsamningur við Matorku.

[16:12]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það hvort fyrirtækjum standi yfir höfuð til boða ívilnanir eða ekki, eins og hv. þm. Björt Ólafsdóttir hefur nefnt í umræðunni, er mjög góð spurning. Ég held að við ættum að vera að ræða hana. Ég sagði áðan að ég væri þeirrar skoðunar að best væri að skattkerfi og efnahagsumhverfi á Íslandi væri á heimsmælikvarða, eins og það var reyndar orðið það góða ár 2007 þegar jómfrúrræða mín á þinginu var einmitt um að ég fagnaði því að álverið í Straumsvík vildi losna undan sérsamningunum af því að skattkerfið hér var orðið á heimsmælikvarða. Þangað viljum við stefna aftur.

Þangað til þurfum við að svara því hvað við viljum gera í millitíðinni. Við viljum auka hér fjárfestingu, við viljum auka athafnafrelsi fólks og koma fleiri verkefnum í gang. Hvaða tæki og tól höfum við til þess? Jú, við höfum almennar reglur Evrópusambandsins, ríkisstyrkjareglur sem byggja á byggðakorti. Menn geta haft á því skoðanir hvaða landsvæði eiga að vera inni á því byggðakorti og hver ekki en það byggir á þeim almennu reglum, eða við getum haft það fyrirkomulag að ráðherra, hver sem það er, ákveði hverjir eru þeim þóknanlegir. Ég vil ekki kerfi þar sem ég er sett í þá aðstöðu að hafa á því skoðun hvaða eigendur eru þóknanlegir og hverjir ekki. Ég frábið mér aðdróttanir sem hér hafa verið lagðar fram um að það skipti máli. Ástæða þess að þessi samningur er ekki kominn fyrir þingið er að hann er nýgerður. Það á líka eftir að koma með frumvarp um Silicor og United Silicon og við ætluðum að sjálfsögðu að sjá framvindu þessa frumvarps, sem nú er á lokametrunum (Forseti hringir.) og leit út fyrir að væri bara mikil sátt um, og hvernig því mundi reiða af. Af hverju? Af því að þessir samningar hafa allir verið gerðir með það frumvarp að leiðarljósi, (Forseti hringir.) nákvæmlega eins og þetta var hér á seinasta kjörtímabili. Ég bið menn um að nálgast þetta með málefnalegum hætti, horfa á þetta út frá stóru myndinni en ekki út frá einhverjum dylgjum sem eru ekki bara ósmekklegar heldur algjörlega rangar.