144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóðanna og fjárfestingar í íbúðarhúsnæði.

568. mál
[16:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra sem varðar lífeyrissjóðina og mögulega aðkomu þeirra að húsnæðismálum og einnig hvað varðar fjárfestingarumhverfi þeirra og um hvað líður vinnu í því efni. Sem betur fer eru lífeyrissjóðir landsmanna öflugir og eiga til greiðslu lífeyris um 150% af vergri landsframleiðslu í hreina eign til að mæta skuldbindingum sínum. Uppbygging sjóðanna er enn í þeim takti að þegar horft til iðgjaldagreiðslna og ávöxtunar umfram greiddan lífeyri eru þeir að nýfjárfesta um 100 til 120 milljarða á ári, gróft reiknað, á þessu árabili þannig að það er mikil stærð í okkar hagkerfi og með gjaldeyrishöft við lýði og takmarkaða fjárfestingarkosti. Þar sem tiltölulega fá fyrirtæki eru skráð á hlutabréfamarkaði o.s.frv. er eðlilega rætt um það hvernig þessari stóru stærð væri komið fyrir í hagkerfinu, a.m.k. þau ár sem lokað er fyrir fjárfestingar þeirra erlendis eða mjög takmarkað sem þeir geta gert í þeim efnum. Undarlegt nokk hafa lífeyrissjóðir reyndar selt talsvert af beinum eða óbeinum erlendum fjárfestingum í gegnum það að láta af hendi hlutafélög, hlutabréf og eign í fyrirtækjum sem eru með erlent tekjustreymi, en það er önnur saga.

Mikið hefur verið rætt um mögulega aðkomu lífeyrissjóðanna að húsnæðismálum. Lögum var breytt á árinu 2011 til að opna leiðir fyrir lífeyrissjóði til að fjármagna eða fjárfesta eftir atvikum í húsnæði. Hugsunin var ekki síst sú að lífeyrissjóðirnir gætu með sínu mikla afli að einhverju leyti verið þátttakendur í því að bæta úr ástandi á leigumarkaði eða byggja húsnæði fyrir aldrað fólk.

Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi átt viðræður við lífeyrissjóðina eða núverandi ríkisstjórn hafi haldið áfram viðræðum við lífeyrissjóðina um mögulega aðkomu þeirra að þessu leyti. Ýmsir hafa talað fyrir þessu á vinnumarkaðnum og er á engan hallað þó að Helgi í Góu sé nefndur sem hefur eggjað lífeyrissjóði og aðila vinnumarkaðarins lögeggjan í þeim efnum að lífeyrissjóðirnir leggi þarna sitt af mörkum. Og ekki er vanþörf á, eins og kunnugt er er ástandið afar erfitt á húsnæðismarkaði, sérstaklega hjá leigjendum, skortur er á leiguhúsnæði og leiguverð mjög hátt í og með af þeim sökum.

Í öðru lagi hef ég spurt hæstv. ráðherra hvað líði vinnu við endurskoðun lagaákvæða um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Lengi hefur slík vinna staðið yfir en ekki bólar á heildarniðurstöðum. Menn hafa gripið til tímabundinna úrræða eins og að rýmka heimildir lífeyrissjóða til kaupa í óskráðum bréfum úr 10% í 20%. Núna er í bígerð að rýmka sérstaklega heimildir þeirra til að skrá á hliðarmarkaði.

Að lokum væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra örlitlar hugleiðingar um það hvernig hann sér fyrir sér á þessu stigi mála, eftir því sem það er hægt, að fjárfestingarumhverfi (Forseti hringir.) lífeyrissjóðanna verði á næstu árum, þá ekki síst ef skyldi nú takast í fyrirsjáanlegri framtíð að aflétta gjaldeyrishöftum.