144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóðanna og fjárfestingar í íbúðarhúsnæði.

568. mál
[16:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, þau voru út af fyrir sig upplýsandi um stöðuna svo langt sem þau náðu. Satt best að segja eru ekki mikil tíðindi í þeim. Mér finnst umhugsunarefni að hæstv. ráðherra hefur engar viðræður átt við lífeyrissjóðina um mögulega aðkomu þeirra að húsnæðismálunum. Það kann að vera að hæstv. félagsmálaráðherra hafi átt það.

Ég tel að ekki eiga að gefa það upp á bátinn að lífeyrissjóðirnir séu áfram, ég vil orða það þannig frekar en á nýjan leik eða upp á nýtt, þátttakendur í því að fjármagna að einhverju leyti uppbyggingu nauðsynlegs íbúðarhúsnæðis í landinu. Lífeyrissjóðirnir gerðu það auðvitað í gegnum kaup á bréfum Íbúðalánasjóðs um árabil og áratugaskeið. Nú eru þar breyttir tímar og bankar stórir í að lána fé til íbúðarhúsnæðis og lífeyrissjóðirnir tútna út af fé innan lands á sama tíma og bráðvantar húsnæði á almennan leigumarkað, einkum á suðvesturhorninu, og vantar líka íbúðir við hæfi fyrir aldrað fólk víða í landinu. Manni fyndist það geta verið upplagt verkefni fyrir lífeyrissjóðina. Ég tel það ekki frambærileg rök að menn sjái fyrir sér að leigufélög eigi öll að vera félög sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Það fjármagn sem bundið er í byggingu húsnæðisins ætlar sér væntanlega alltaf einhverja ávöxtun. Ekki er betri kostur að afhenda það hlutverk alfarið einkaaðilum, fasteignafélögunum fínu sem spruttu upp úr gjaldþrotum gegnum bankakerfið. Eiga þau þá bara að sjá um þetta? Ekki munu þau ætla sér minni hlut en lífeyrissjóðir sem væru þá bara að sækjast eftir hóflegri ávöxtun á það fé sem þeir legðu inn í slík leigufélög.

Ég er sammála því að það þarf að sjálfsögðu að kortleggja mjög fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóðanna samhliða og jafnvel að einhverju leyti áður en menn taka afgerandi skref í afnámi gjaldeyrishafta. Ef stefnir í að hreint fé þeirra nálgist 200% af vergri landsframleiðslu sjá allir hversu gríðarleg stærð það er orðin ef sá (Forseti hringir.) stabbi er mestallur á beit í okkar hagkerfi. Bæði út frá sjónarhóli áhættudreifingar og ávöxtunar þarf að leggja niður fyrir sér hvernig (Forseti hringir.) hægt er að einhverju leyti að vinda ofan af þeirri stöðu.