144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

tollar á franskar kartöflur.

606. mál
[16:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég átti orðastað við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á dögunum um stefnu í tollamálum, einkanlega vegna þess að ráðherrann var að hreyfa hugmyndum um að festa hér í langtímasamningum tollvernd og himinháa tolla á landbúnaðarvörum, og ræddi ég við hann í því sambandi meðal annars um þá tollvernd sem er í landinu á kjúklingaiðnaði. Ég tel hana ekki eiga sér neinar röksemdir í þeirri eðlilegu vernd sem við viljum hafa fyrir hefðbundinn íslenskan landbúnað, dæmigert íslenskt fjölskyldubú, mjólkurbúin, sauðfjárræktina o.s.frv. Þar á auðvitað fyrst og fremst í hlut iðnaðarstarfsemi sem er verið að verja algerlega óhæfilega með himinháum tollum á neytendur.

Það sem ég spyr hæstv. fjármálaráðherra um er skylt, það eru franskar kartöflur. Ég hygg að ég muni leggja ýmsar aðrar spurningar tengdar tollamálum fyrir bæði hann og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í þessu tilfelli um rökin að baki þessum tollum. Ég hygg að tollprósentan á þessa vöru sé 76% en ég held að innanlandsframleiðslan dugi ekki nema fyrir kannski um 5% markaðarins. Það er ekki einu sinni víst að þessi 5% sem framleidd eru hér séu yfir höfuð framleidd úr íslenskum kartöflum. Ég hygg að þær séu ekki alltaf hagfelldasta hráefnið til þessarar framleiðslu. Hvað sem því líður, þó að þetta væri alíslenskt hráefni eru þetta bara 5% markaðarins. Manni virðist kannski ekki mjög gæfulegt að tolla 95% af markaðnum um hátt í 100% til að styðja við ekki umfangsmeiri framleiðslu en þetta. Ef menn vilja styðja þessa framleiðslu, væri þá ekki nær að gera það með beinum stuðningi við framleiðendurna en vera ekki að tolla allan almenning með þessum háu tollum?

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvaða rök standi að baki þessum tolli. Er hann lagður á út frá heilsufarssjónarmiðum vegna þess að þessi matvara sé með einhverjum hætti óhollari en önnur matvara? Er þetta lagt á sem verndartollur fyrir landbúnað? Eða er þetta hrein og klár tekjuöflunaraðgerð?

Af við að höfum smávegis aukatíma þegar málið er ekki stærra væri ekki úr vegi að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir sjónarmiðum hans sjálfs, því að þau hafa ekki komið fram í umræðunni, um það að gera 15 ára langtímasamning um tollvernd fyrir landbúnaðinn. Líst honum í prinsippinu vel á slíka hugmynd?