144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

tollar á franskar kartöflur.

606. mál
[16:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Áður en ég hefst handa við að svara fyrirspurninni um það hvernig háttað er tollum á franskar kartöflur og hvert markmiðið með tollunum sé er rétt að gera grein fyrir því að við vinnslu svarsins kom í ljós að það má hafa ólíkar skoðanir á því hvert nákvæmlega merkingarfræðilegt inntak orðanna franskar kartöflur er. Víða erlendis falla ýmsar aðrar gerðir kartöfluafurða undir þessi orð, t.d. það sem við köllum kartöflunasl og ýmiss konar vörur sem mótaðar eru úr kartöflumjöli eða jafnvel deigi. Eftirgrennslan fjármála- og efnahagsráðuneytisins leiddi í ljós að franskar kartöflur sem framleiddar eru hér á landi eru sneiddar eða skornar niður í eitthvað sem kalla mætti strimla og frystar til að verja gegn skemmdum. Það er það sem ræður tollflokkuninni, hvernig þetta er skilgreint nákvæmlega, og þess vegna er þetta nefnt hér. Reyndar eigum við dæmi úr sögunni þar sem þetta réð úrslitum um hvernig ætti að haga álagningu.

Hvernig er tollum á franskar kartöflur háttað? Samkvæmt ákvæði 5. gr. gildandi tollalaga skal greiða toll af vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins eins og mælt er fyrir um í tollskrá í viðauka I með lögunum. Franskar kartöflur eru fluttar inn frosnar og sneiddar eða skornar og eru undir tollskrárnúmerinu 2004.1002. Þá er hugsanlegt að þær séu einnig fluttar inn frystar, soðnar eða ósoðnar undir tollskrárnúmerinu 0710.1000 en í litlu magni þó. Þar sem mikill meiri hluti innflutningsins er á fyrra tollskrárnúmerinu mun umfjöllunin í framhaldinu einskorðast við franskar kartöflur sem fluttar eru inn á því númeri.

Almennur tollur á innflutning franskra kartaflna, verðtollur, er lagður á tollverð vöru eða sendingar og nemur 76%, eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda. (Gripið fram í: Vá.) Tollur á innflutning á frönskum kartöflum samkvæmt fríverslunarsamningum sem EFTA hefur gert við Kanada, Kólumbíu, Perú og Kína er hins vegar 46% þannig að þar á er töluvert mikill munur og mikið hagræði af því fyrir innflytjendur, sem nýtist neytendum á endanum, að taka þessa vöru inn frá viðkomandi löndum. (KLM: Dýrari flutningur.)

Í öðru lagi felst í fyrirspurn þingmannsins spurningin hvert markmiðið sé með tollum sem lagðir eru á franskar kartöflur. Því er til að svara um tolla almennt að þeir eru lagðir á við innflutning vara í því skyni að afla ríkissjóði tekna. Auðvitað eru tollar síðan í hina röndina oft lagðir á til þess að vernda tiltekna framleiðslu. Alþingi fer með ákvörðunarvald um fjárstjórn ríkisins og það er almennt á valdi þess að ákveða hvaða skattar skuli innheimtir, hverju nafni sem þeir nefnast.

Ég ætla ekki að fara nánar ofan í þessi tæknilegu atriði, ég ætla bara að koma aðeins inn á þá almennu umræðu um tollana sem hv. þingmaður er að kalla eftir. Fyrst vil ég segja varðandi langtímasamninga við landbúnaðinn í landinu að ég tel að matvælaframleiðslan í landinu þurfi á langtímasýn að halda, rekstraröryggi sem byggir á samningum sem ná til lengri tíma en eins eða tveggja ára. Ég tel mjög gild rök fyrir því að búa um umhverfi matvælaframleiðslu í landinu með samningum sem eru í grunninn keimlíkir þeim sem hafa falist í búvörusamningunum fram til þessa. Þó má hins vegar alltaf deila um nákvæmlega það hvernig þessir hlutir eru útfærðir.

Varðandi tolla að öðru leyti og almennt eru þetta í mjög grófum dráttum annars vegar tollar sem leggjast á matvæli og hins vegar tollar sem leggjast á ýmsar iðnaðarvörur, sem sagt annars vegar landbúnaðarvörur og hins vegar iðnaðarvörur. Ef við tökum landbúnaðarvörurnar örlítið til hliðar erum við með iðnaðarvörurnar og þá tollflokka sem þar heyra undir. Ég verð að segja alveg eins og er að það kom mér á óvart, þrátt fyrir að ég hafi reynt að fylgjast ágætlega með ríkisfjármálunum í allnokkurn tíma, þegar ég áttaði mig á því að heildartolltekjurnar eru ekki nema rétt um 2,5–3 milljarðar vegna alls annars en þess sem tengist landbúnaði og þar af eru tolltekjur vegna fatnaðar og skóa rétt um 1 milljarður. Þetta segir mér að það geti legið mikil tækifæri í því til einföldunar og hagræðis fyrir innflytjendur og til hagsbóta fyrir neytendur í landinu að gera verulega (Forseti hringir.) tiltekt í tollamálum okkar Íslendinga. Ég get rætt það betur í minni seinni ræðu.