144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

raforkumál á Norðausturlandi.

569. mál
[17:03]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir þessa fyrirspurn. Ég deili með honum ýmsum þeim sjónarmiðum sem hann kom hér með og áhyggjum varðandi raforkuöryggi á Norðausturlandi.

Til að svara spurningum þingmannsins, ég ætla ekki að endurtaka þær, má skipta raforkuflutningskerfi Landsnets á Norðausturlandi í tvo hluta, annars vegar með tengingu Kröflu við byggðalínuhringinn, Kröflulína 1 tengir Kröflu við tengivirkið Rangárvelli á Akureyri og Kröflulína 2 Kröflu við Fljótsdal. Hins vegar er landshlutakerfið 66 kílóvatta og 33 kílóvatta, en þar fer lína frá Rangárvöllum til Laxárvirkjunar og áfram til Kópaskers. Á þeirri leið eru jafnframt tengingar við Þeistareyki, Lindarbrekku og Silfurstjörnuna og auk þess er 33 kílóvatta lína frá Laxárvirkjun til Húsavíkur. Á Kópaskeri er afhendingarstaður Landsnets og þaðan er 33 kílóvatta lögn í eigu Rariks til Raufarhafnar, 19 kílómetrar í streng og 10 kílómetrar í loftlínu. Frá Kópaskeri er einnig 33 kílóvatta lögn í eigu Rariks til Þórshafnar, 52 kílómetrar í jarðstreng sem lagður var eftir ísingarveðrið 1955 og 5 kílómetrar í loftlínu sem lögð var árið 1991. Frá Þórshöfn er svo 11 kílóvatta jarðstrengur til Bakkafjarðar sem annar núverandi notkun.

Ef við horfum til byggðalínunnar er flutningsgetan á svæðinu mjög takmörkuð, svipað og gildir á flestum stöðum landsins, að suðvesturhorninu undanskildu. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni, þarna skortir á hringtengingar líkt og fyrir vestan. Er í rauninni sláandi þegar maður horfir á dreifikerfi raforku um landið hvað þarna vantar upp á. Sé hins vegar horft til landshlutakerfisins eru afhendingaröryggi og gæði raforkunnar takmörkuð sökum langra flutningsleiða með tengingar við veikt meginflutningskerfið. Álaginu á svæðinu er nú þannig háttað að í Lindarbrekku, Silfurstjörnunni og á Kópaskeri er hámarksálag um eða undir 1 megavatti á hverjum stað. Á Raufarhöfn er hámarksálagið rétt innan við 2 megavött og hámarksálag á Þórshöfn er nú um 6 megavött. Afhendingargeta um allt þetta kerfi er mjög takmörkuð umfram núverandi notkun. Þetta er að sjálfsögðu óásættanlegt.

Þess vegna spyr hv. þingmaður í öðru lagi hvort uppi séu áform um að bæta úr þessu. Því er til að svara að ef maður lítur til kerfisáætlunar Landsnets frá 2014–2023 koma fram ákveðin verkefni sem hafa það að markmiði að styrkja þennan landshluta með bættu afhendingaröryggi og aukinni flutningsgetu. Þar má nefna að stefnt er að því að tengja fyrirhugað iðnaðarsvæði á Bakka við meginflutningskerfið, tengja Þeistareykjavirkjun, byggja Kröflulínu 3 og bæta tengingu við Húsavík.

Auk þessara verkefna eru frekari styrkingar á meginflutningskerfinu til skoðunar. Má þar nefna styrkingu á milli Kröflu og Akureyrar og skoðun á tengingum milli Suðvestur- og Norðausturlands um Sprengisand. Það er kannski sú framkvæmd sem væri þá umdeildust í þessu öllu saman.

Til að geta lagt betur mat á þörf fyrir úrbætur á þessu landsvæði skipaði ég í september á síðasta ári þann hóp sem hv. þingmaður er að spyrja hvort ég hafi í hyggju að skipa. Hann var skipaður í september 2014 til að skoða einmitt hvaða leiðir væru færar til að bæta úr ónógri flutningsgetu og takmörkun afhendingaröryggis raforkukerfisins á svæðinu. Sá starfshópur hefur þegar tekið til starfa. Þar sem vinnan er nýlega hafin er of snemmt að segja til af nákvæmni um hvaða áform séu uppi um úrbætur en gera má ráð fyrir að fyrstu tillögur þess efnis muni liggja fyrir síðar á árinu á grundvelli vinnu starfshópsins.

Í þessum hópi eiga sæti átta fulltrúar, frá Orkustofnun, Norðurorku, Þingeyjarsveit, Norðurþingi og Tjörneshreppi, Ísfélagi Vestmannaeyja, Rarik, Landsneti og Langanesbyggð, Svalbarðshreppi og Vopnafjarðarhreppi.

Ef ég næ ekki að fara yfir verkefnin núna get ég lokið því í mínu seinna svari. Það er í fyrsta lagi að afla reglulegra upplýsinga um þróun afhendingaröryggis, gæða raforku og uppsetts varaafls á Norðausturlandi, annars vegar með tölulegum upplýsingum frá raforkufyrirtækjum og hins vegar með könnunum á viðhorfum notenda, í öðru lagi að fara yfir áætlanir flutnings- og dreififyrirtækja varðandi uppbyggingu og endurbætur á raforkukerfinu og tímasetningar og forgangsröðun, í þriðja lagi að fylgjast með áætlanagerð Landsnets vegna mögulegrar styrkingar flutningskerfisins fyrir Norðausturland og í fjórða lagi að hafa frumkvæði að því að á næstu fjórum árum verði gerð sérstök rammaáætlun fyrir raforkuframleiðslu og raforkuflutning á Norðausturlandi sem nái til minni og stærri virkjunarkosta. Við reiknum með að ráðgjafarhópurinn komi saman eigi sjaldnar en tvisvar á ári og skili fyrir 1. október ár hvert greinargerð til (Forseti hringir.) iðnaðar- og viðskiptaráðherra um prófun ofangreindra þátta. Fyrsti fundurinn var í nóvember á Húsavík og er næsti fundur fyrirhugaður (Forseti hringir.) í vor. Þetta er gert eftir sömu hugmyndafræði og Vestfjarðanefndin sem hv. þingmaður vísaði til.