144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

vandi Búmanna hsf.

550. mál
[17:19]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnir hv. þm. Guðbjarts Hannessonar. Þar er spurt meðal annars hvort ég hyggist beita mér fyrir lausn á vanda Búmanna hsf. og þá með hvaða hætti. Það ætti að vera hv. þingmanni ljóst, sem fyrrverandi ráðherra þessa málaflokks, að mér er ekki heimilt að tjá mig um einstök mál sem hugsanlega koma inn á borð mitt sem ráðherra og ég mun því ekki tjá mig um stöðu einstakra skuldara Íbúðalánasjóðs. Ég vil þó segja að ég hef lagt áherslu á að sjóðurinn vinni úr skuldamálum í samræmi við lög og reglur sem hann varða.

Í 3. mgr. 3. gr. laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána kemur beinlínis fram að leiðréttingin nái ekki til lögaðila, þrátt fyrir að til láns hafi verið stofnað með beinum eða óbeinum hætti í þágu einstaklinga, þar með talið samkvæmt lögum um húsnæðissamvinnufélög. Mál þetta heyrir undir hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ég get því ekki annað en vísað til þess sem hann hefur þegar sagt um þetta mál og hefur komið margítrekað fram hér á þingi.

Að því er varðar málefni húsnæðissamvinnufélaga er verið að leggja lokahönd á frumvarp til laga um breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög í ráðuneytinu og hef ég í hyggju að leggja það fram fyrir 1. apríl næstkomandi. Við smíði frumvarpsins var tekið mið af þeim tillögum sem þegar hafa komið fram í skýrslu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála, auk þess sem haft hefur verið samráð við fulltrúa stærstu húsnæðissamvinnufélaganna, þ.e. Búseta í Reykjavík, Búseta á Akureyri og Búmanna.

Meginmarkmið frumvarpsins er að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa á Íslandi í samræmi við það markmið stjórnvalda að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins. Frumvarpinu er þannig ætlað að stuðla að sjálfbærum rekstri húsnæðissamvinnufélaga á Íslandi og er því leitast við að auka svigrúm fyrir fjölbreytileika þeirra með því að fela þeim sjálfum ákvörðunarvald um ýmis atriði sem áhrif kunna að hafa á rekstur þeirra, þurfa í rauninni að fjalla um þau með nákvæmari hætti en í lögum. Einnig er í frumvarpinu lögð áhersla á að húsnæðissamvinnufélög byggjast á þátttöku félagsmanna sinna og er því mikilvægt að þeir geti komið að ákvörðunum sem hafa áhrif á hag félaganna til lengri eða skemmri tíma.

Að þessu sögðu tel ég engu að síður nauðsynlegt að lögfest verði ákvæði um tiltekin atriði sem stuðlað geta að sjálfbærum rekstri húsnæðissamvinnufélaga ásamt því að veita rekstri þeirra ákveðið aðhald. Því er í frumvarpinu lagt til að kveðið verði á um að óheimilt verði að greiða fé úr húsnæðissamvinnufélagi til þeirra sem að félaginu standa sem arð eða hvers konar ígildi arðs. Þess í stað er gert ráð fyrir að rekstrarafgangi verði varið til vaxtar og viðhalds félagsins, svo sem til niðurgreiðslu lána þess. Að auki er lagt til að mælt verði fyrir um að húsnæðissamvinnufélögum verði óheimilt að kveða á um kaupskyldu félags á búseturétti í samþykktum sínum og búsetusamningum, en reynslan hefur sýnt að kaupskylda getur reynst félögum afar íþyngjandi og einkum þegar markaðsaðstæður eru erfiðar og margir búseturéttarhafar fara fram á það samtímis að félagið kaupi af þeim búseturéttinn á grundvelli kaupskyldu.

Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um skyldu húsnæðissamvinnufélags til að framkvæma reglubundnar úttektir á fjárhagi sínum, skuldbindingu á starfsemi félagsins, en slík reglubundin úttekt gæti leitt til þess að unnt væri að grípa inn í fjármál húsnæðissamvinnufélags áður en í óefni er komið í rekstri þess og það gæti líka nýst til þess að upplýsa félagsmenn um stöðu félagsins hverju sinni. Einnig eru þar ákvæði sem snúa að endurskoðun og ársreikningum og að húsnæðissamvinnufélög geti fjármagnað sig áfram með lántökum hjá fjármálafyrirtækjum eða öðrum lánastofnunum en kunna einnig að eiga kost á styrkjum eða öðrum fjárframlögum og ætti því ekkert að vera til fyrirstöðu að geta tekið á móti slíkum styrkjum.

Það er von mín að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu muni meðal annars gera húsnæðissamvinnufélögum kleift að koma betra skipulagi á rekstur sinn. Þannig fá félagsmenn svigrúm og möguleika á að haga reglum félagsins og rekstrarlíkani með þeim hætti sem þeir telja best hæfa félaginu og þannig að hag félagsins sé best borgið.

Einnig geri ég ráð fyrir að þær reglubundnu úttektir sem ég nefndi á stöðu húsnæðissamvinnufélaga muni leiða til þess að félögin geti komið í veg fyrir að lenda í fjárhagslegum vanda. Við munum fá tækifæri til þess að fara yfir þetta þegar frumvarpið kemur til umræðu í þinginu.

Að því er varðar spurningu hv. þingmanns um rétt búseturéttarhafa í húsnæðissamvinnufélögum til vaxtabóta eða húsaleigubóta þá eiga þeir í dag rétt til vaxtabóta, en hugsanlega færi betur á því að þeir ættu rétt til væntanlegra húsnæðisbóta í ljósi þess að þeir greiða mánaðarlega svokallað búsetugjald en ætlað er að gjaldið taki mið af rekstrar-, viðhalds- og fjármagnskostnaði sem þarf ekki að vera til kominn vegna lántöku félagsins. Þannig má færa rök fyrir að búsetuformið líkist frekar leiguformi en eignarformi, eins og hv. fyrirspyrjandi benti sjálfur á í sinni tíð sem velferðarráðherra.

Ég vil hvetja þingmenn (Forseti hringir.) til að velta þessu fyrir sér. Ég stefni að því að leggja fram frumvarp til húsnæðisbóta sem ætlaðar eru fyrir leigjendur fyrir 1. apríl næstkomandi og við getum þá (Forseti hringir.) rætt þennan möguleika í umræðum um það frumvarp.