144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

vandi Búmanna hsf.

550. mál
[17:28]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir hans fyrirspurn og fyrir að hafa tekið þetta mál upp hér. Ég vil hins vegar benda á að hv. þingmaður er væntanlega ágætlega inni í þeim málum sem hann er hér að spyrja um, enda var Íbúðalánasjóður, og þá einstakir skuldarar hjá Íbúðalánasjóði, á hans könnu á sínum tíma. Hv. þingmaður kom líka að því að setja þann lagaramma sem varðar skiptingu verka á milli stjórnar Íbúðalánasjóðs og ráðherra. Ég var að svara í samræmi við þau lög sem eru til staðar í landinu þannig að ég get ekki tjáð mig um stöðu einstakra skuldara en lagði hins vegar áherslu á að sjóðurinn vinni vel úr þeim skuldamálum, en að sjálfsögðu í samræmi við þau lög og þær reglur sem gilda í landinu.

Ég fór líka yfir þær breytingar sem hér er verið að fara í gegnum. Ég verð að lýsa mig algjörlega ósammála því sem hv. þingmaður sagði hér. Ekkert frekar en að hlutafélagaformið varð dautt við það að rúmlega 90% bankakerfisins fóru á hausinn, þá get ég ekki tekið undir það að leggja eigi af ákveðin félagaform vegna þess að einstök félög lendi í erfiðleikum. Við horfum hins vegar til þess að skapa betra rekstrarumhverfi, en um leið að skerpa á ábyrgð þeirra félagsmanna sem fara með stjórn viðkomandi félaga, að þeir hafi upplýsingar til að geta tekið bestu mögulegu ákvarðanir sem snúa að viðkomandi rekstri.

Ég vil ítreka það sem ég sagði hér um húsnæðisbætur varðandi leigjendur, það er eitt af því sem ég held að nauðsynlegt sé að við ræðum hér í þinginu og skoðum. Ég geri ráð fyrir að ráðherra velferðarnefndar, sem hv. þingmaður á sæti í, muni fara sérstaklega yfir það þegar frumvörpin koma þangað til meðferðar.