144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

norrænt merki fyrir sjálfbæra ferðamannastaði.

567. mál
[17:39]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall kærlega fyrir þetta og tek undir með honum, það er vissulega brýnt að huga að þessum málum öllum saman. Þessi mikla fjölgun ferðamanna kemur okkur nokkuð í opna skjöldu, við erum ekki algjörlega tilbúin. Þess vegna er mikilvægt að við getum nýtt okkur bæði vinnu og reynslu Norðurlandanna í þeim efnum.

Við höfum þetta sameiginlega eins og við vitum undangengin ár með Svaninn og það væri mjög mikils virði að við gætum mótað eitthvað slíkt með norrænu löndunum hér varðandi ferðamennsku. Það er gott að geta skilgreint þessa staði, en eins og ég gat um í fyrri ræðu minni tel ég þetta nokkuð flókið, og flóknara en þó þær reglur sem við höfum til að miða við varðandi Svaninn. Það er mikilvægt að standa að skipulagi, verndaraðgerðum og innviðauppbyggingu fyrir svæði sem mikið álag er á. Þess vegna þurfum við að geta skilgreint ferðamannasvæði, ferðamannastaði. Erum við að velta fyrir okkur svæðum eins og Vatnajökulsþjóðgarði eða erum við bara hreinlega að skipuleggja allt landið?

Það er gott ef við getum haft sameiginlegan norrænan virðisauka varðandi þessi mál og nýtt okkur reynslu þeirra landa sem eru þó lengra komin. Hins vegar vek ég athygli á því að það er líka gagnlegt að hver og einn hafi sitt merki og sína sérstöðu.