144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

augnlæknaþjónusta.

595. mál
[17:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Tilefni að þessari fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra um augnlæknaþjónustu á Austurlandi kemur í framhaldi af kjördæmaviku þar sem þingflokkur Samfylkingarinnar fór allur austur á land og átti þar fjölmarga fundi ásamt því að fara í heimsóknir á ýmsar stofnanir þar.

Eitt af því sem bar á góma á þessum fundum upphófst eftir að Eydís Ásbjörnsdóttir, bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð, sagði okkur þingmönnum frá því hvernig staða augnlæknamála væri á Austurlandi. Það er tilefnið að þessari spurningu. Þar komu að vísu fram upplýsingar um að augnlæknaþjónustu hafi alveg verið hætt en síðan hef ég fengið upplýsingar um að annar augnlæknirinn sé hættur að koma en hinn kemur tvisvar á ári.

Virðulegi forseti. Þetta er ástæðan fyrir spurningum mínum en til að útskýra þetta aðeins betur kom fram hjá einum aðila að hann þekkti dæmi um foreldri sem þurfti að fara með barn til augnlæknis í Reykjavík vegna þess að komum augnæknanna hefur fækkað svo mikið og það kostaði viðkomandi 144 þús. kr., flug fyrir foreldri plús barn. Tvær ferðir greiðast að vísu af Sjúkratryggingum Íslands en viðkomandi þarf að fara oftar og þá er það eingöngu kostnaður viðkomandi sem fellur þar til. Ef það er tvisvar í viðbót eru það þessar 144 þús. kr. plús auðvitað annar kostnaður vegna vinnutaps og uppihalds í Reykjavík.

Ég vek athygli á því að Sjúkratryggingar borga sem sagt þessar 144 þús. kr. en ástæðan fyrir því að augnlæknar vilja minna fara austur á land, og ef til vill á aðra staði á landsbyggðinni líka, er samningar Sjúkratrygginga Íslands við sérfræðilækna þar sem þeir krefjast 10% afsláttar eftir að komið er fram yfir ákveðinn einingafjölda. Ríkissjóður greiðir þetta úr sínum vasa en væri ekki betra að þessir peningar færu til Heilbrigðisstofnunar Austurlands og jafnvel einhver augnlæknakvóti til þess heilbrigðisumdæmis þannig að íbúarnir gætu notað þetta þar í staðinn fyrir að taka á sig svona löng ferðalög?

Á öðrum fundi kom fram lýsing frá fullorðnu fólki sem þurfti að taka fullorðinn ættingja sinn af dvalarheimili og keyra með hann til Akureyrar til augnlæknis og aftur til baka sem hafði mjög alvarlegar afleiðingar. Spurning mín til ráðherra snýr að þessu:

1. Er ráðherra kunnugt um hvers vegna augnlæknaþjónustu á Austurlandi með komu sérfræðinga hefur verið hætt? — Ég tek skýrt fram að henni hefur ekki verið hætt en hún hefur minnkað mjög mikið.

2. Er eitthvað í starfsemi Heilbrigðisstofnunar Austurlands (Forseti hringir.) sem skýrir þessa breytingu?

Þetta eru þær spurningar, virðulegi forseti, sem ég vildi leggja fyrir hæstv. ráðherra.