144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

augnlæknaþjónusta.

595. mál
[17:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar tvær spurningar sem hann beinir til mín og varða augnlæknaþjónustuna á Austurlandi. Það er rétt sem kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda, Kristjáns Möllers, að augnlæknaþjónustu á Austurlandi hefur ekki verið hætt, það er ekki svo. Tveir augnlæknar sinntu Austurlandi og annar þessara tveggja ákvað sjálfur að hætta komum austur. Þegar það lá fyrir leitaði Heilbrigðisstofnun Austurlands til Sjúkratrygginga Íslands og fór fram á að fá til sín þær einingar sem þarna undir heyra svo stofnunin gæti ráðið sjálf úr þessum málum og ráðið þess vegna til sín augnlækni. Það var gengið frá samningi milli Sjúkratrygginga og Heilbrigðisstofnunar Austurlands um mitt ár 2014, en enn sem komið er hefur ekki tekist að ná samningi við nýjan augnlækni. Stofnunin hefur unnið að því og þetta verk komst á að minni beiðni þegar ég fékk fréttir af þessu síðastliðið vor. Í rauninni hefur því engin breyting orðið á starfsemi Heilbrigðisstofnunar Austurlands, það er langur vegur frá, hún kappkostar þvert á móti að veita sem besta þjónustu og stuðla að því að bæta aðgengi að sérgreinaþjónustu á Austurlandi. Aðkoma Sjúkratrygginga að þessu leytinu til er góð, enda er ljóst að flestir sérgreinalæknar í landinu starfa samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar.

Þeir samningar sem um sérgreinalæknana gilda hafa veruleg áhrif og geta haft áhrif á dreifingu framboðs þeirra sérhæfðu verka um landið. Eins og ég gat um hef ég beitt mér fyrir þessu í samtölum við bæði SÍ og Heilbrigðisstofnun Austurlands, en ég hef sömuleiðis rætt þetta við forstjóra allra heilbrigðisstofnana og hvatt þá til að horfa heildstætt á þessa hluti vegna þess að þeir níu einstaklingar sem gegna forstöðu fyrir heilbrigðisstofnanir landsins í níu umdæmum eiga að minni hyggju að líta svo á að þeir beri allir ábyrgð á því að veita öllum landsmönnum heilbrigðisþjónustu. Þar liggur ábyrgð í stofnanarekstrinum, sérstaklega á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og Sjúkrahúsinu á Akureyri, við það að miðla af sinni sérþekkingu út til annarra svæða landsins.

Ég vil þó geta þess út af þessari fyrirspurn að samkvæmt yfirliti sem ég óskaði eftir að fá um útgjöld vegna þjónustu við augnlækningar hafa þau aldrei verið meiri á Austurlandi en síðastliðin tvö ár, 2013 og 2014, hvort heldur maður lítur á heildarútgjöldin eða eingöngu á hlut Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Því er ekki til að dreifa að við séum ekki að leggja sama magn af fjármunum inn í þetta, vandræðin hafa staðið til þess að við náum ekki að manna þær stöður sem við erum að sækja í. Fjöldi þjónustuþega af Austurlandi öllu var á árinu 2014 1.527 manns og á því yfirliti sem ég hef frá árunum 2011–2014 er það næsthæsta talan sem liggur yfir þjónustuþega. Ég held að þetta sé ekki í heildina tekið í neitt afskaplega slæmri stöðu. Við höfum hins vegar einstök dæmi sem gjarnan hefðu mátt vera með öðrum hætti en við fáum frásagnir af en þannig hefur þetta alla tíð gengið. Heilbrigðisstofnanirnar hafa þó reynt að bregðast við, eins og ég get hérna um, hvort heldur er á Austurlandi eða annars staðar, að reyna að veita þjónustuna sem næst heimasveit viðkomandi einstaklings.