144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

veiðireglur til verndar ísaldarurriða.

600. mál
[18:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka áhugaverða fyrirspurn um mikilvægt málefni frá hv. þingmanni. Í tilefni af fyrirspurninni óskaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið eftir upplýsingum frá Fiskistofu og Veiðimálastofnun með bréfum og eru eftirfarandi svör byggð á upplýsingum sem bárust ráðuneytinu frá þeim stofnunum núna í marsmánuði.

Meginmarkmið laganna nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, er að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra, samanber 1. gr. laganna. Framkvæmd stjórnsýslueftirlits er hjá Fiskistofu, samanber 4. gr. laganna, og samkvæmt lögunum er það í hendi veiðifélaga að setja sér reglur um veiðileyfi á félagssvæði sínu og skulu þær vera innan þess ramma sem lögin setja. Með lögunum var lögð ríkari ábyrgð á veiðifélög en áður að gæta þess að nýting fiskstofna sé sjálfbær og að þau setji sér reglur um veiði á veiðisvæðum sínum. Um Þingvallavatn er veiðifélag, Veiðifélag Þingvallavatns, sem nær til vatnsins alls og starfar samkvæmt VI. kafla laganna.

Samkvæmt 19. gr. áðurnefndra laga skulu veiðifélög setja nánari reglur um veiðitíma og veiðitakmarkanir í einstökum veiðivötnum. Slíkar reglur, nýtingaráætlun, skal Fiskistofa staðfesta að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar sem er ráðgefandi stofnun varðandi veiðistjórn í ám og vötnum. Nýtingaráætlun afmarkar veiðifélagi leyfilegan veiðitíma, leyfileg veiðarfæri og leyfilegan stangafjölda og annað sem varðar nýtingu á veiðihlunnindum. Veiðifélag Þingvallavatns hefur ekki enn sett sér nýtingaráætlun samkvæmt framangreindu ákvæði. Í nefndri lagagrein kemur fram að Fiskistofa geti að eigin frumkvæði sett nýtingaráætlun fyrir veiðifélög ef veiðifélög sinna ekki þeirri skyldu sinni. Það er þó mun æskilegra að veiðiréttareigendur geri tillögu að nýtingaráætlun allra hluta vegna. Samkvæmt því verður að telja rétt að Veiðifélag Þingvallavatns setji sér nýtingaráætlun um veiði í vatninu sem nái til alls vatnsins, en ráðherra getur ekki tekið afstöðu til þess hvert skuli vera efni slíkra reglna. Ráðherra telur hins vegar rétt að vekja athygli á því að til þess að taka ábyrga afstöðu til veiðinýtingar urriða í Þingvallavatni verður einnig að koma á öflugri veiðiskráningu og gera heildarúttekt á stöðu urriðastofna vatnsins. Samkvæmt 13. gr. áðurnefndra laga um lax- og silungsveiði ber handhafa veiðiréttar að gera skýrslu um veiði í viðkomandi veiðivatni sem Veiðimálastofnun safnar á tilteknu formi í umboði Fiskistofu.

Við laxveiðiár á Íslandi er veiði skráð í þar til gerða veiðibók og er skráningin með því besta sem þekkist í heimi. Veiðimálastofnun gefur árlega út samantekt um upplýsingar um lax- og silungsveiði í samráði við Fiskistofu. Það hefur þó ekki gengið eins vel að halda skrá um veiði í silungsvötnum. Upplýsingar um veiði í Þingvallavatni eru brotakenndar og ekki hægt að byggja á þeim þegar ákvarða á skipulag veiði. Fiskistofa hefur til skoðunar hvaða leiðir gætu gagnast til að bæta skráningu og mun starfa með veiðifélaginu og Veiðimálastofnun að því að bæta skráningu veiðinnar í vatninu. Þar sem vatnið er stórt og veiði stunduð víða í vatninu er erfitt að koma við skráningu í veiðibók líkt og þekkist um laxveiðiárnar. Gera má þó tilraun til að bæta skráningu með því að veiðifélagið láti gera skráningarform og vefsíðu þar sem aðgengileg væri veiðimönnum. Heildstæðar upplýsingar um veiði í Þingvallavatni mætti nota til að meta hvort ástæða væri til aðgerða til verndunar á urriðanum.

Þá er mikilvægt að fylgst sé með ástandi urriðastofns Þingvallavatns þar sem, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, um viðkvæman stofn og sögufrægan er að ræða og ekki búið að koma upp nýjum hrygningarstöðum við útfall vatnsins í stað þeirra sem töpuðust þegar byggð var stífla í útfallinu vegna vatnsfallsvirkjunar við Steingrímsstöð. Þar til betri upplýsingar um veiði í vatninu liggja fyrir og nýtingaráætlun hefur verið sett er ástæða til að fara varlega í nýtingu á urriða í Þingvallavatni. Reglur um veiði innan þjóðgarðsins hafa mikið að segja í því efni. Varðandi þá samantekt er það í raun og veru þannig að ráðherra hefur samkvæmt þessu ekki lagaheimild til að beita sér fyrir því að tilteknar veiðireglur til verndar ísaldarurriðanum í Þingvallavatni verði látnar ná til vatnsins alls, heldur er það hlutverk veiðifélagsins, eins og reyndar kom fram hjá fyrirspyrjanda, að setja sér nýtingaráætlun og þar með reglur um veiði í vatninu að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar. Það er einnig hlutverk Fiskistofu sem fer með framkvæmd stjórnsýslueftirlits samkvæmt lögunum að fylgja því eftir að veiðifélög uppfylli þá lagaskyldu að setja sér slíkar reglur.

Þá skal upplýst að þær upplýsingar sem til eru um ísaldarurriðastofninn í Þingvallavatni benda til þess að stofninn sé á uppleið og vegna þess er ekki tilefni fyrir stjórnvöld að grípa til annarra aðgerða en þeirra sem koma fram í gildandi lögum og stjórnvaldsreglum, og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan, eins og sakir standa. Ef Fiskistofa, Veiðimálastofnun eða hagsmunaaðilar telja hins vegar þörf á að skoða þessi mál nánar kemur vel til greina að ráðherra skipi nefnd sem taki þessi mál til skoðunar og geri, ef talin verður ástæða til, tillögur að (Forseti hringir.)