144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[13:35]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki er nóg með að þingmannamál hafa ekki ratað í miklum mæli inn í þingsali heldur liggur stór hluti þeirra þingmannamála, sem lögð hafa verið fram nú þegar, enn óræddur í röðinni. Fjöldi þingmannamála sem lögð voru fram snemma á haustdögum hefur ekki enn fengist ræddur hér. Síðan kemur núna tillaga þar sem allir formenn stjórnarandstöðuflokkanna eru sameinaðir á einni tillögu í nafni þessara flokka og þessara þingflokka og mér finnst ekki í lagi að segja við okkur að þetta geti beðið fram yfir páska. Mér finnst við þurfa að fá skýrari rökstuðning núna þegar við erum að ræða hér utanríkismál hvers vegna þetta mikilvæga mál fæst ekki á dagskrá fyrir páska. Mér hefði þótt eðlilegt undir þessum kringumstæðum að forseti yrði við því. Ég þekki ekki dæmi þess að svona hafi verið brugðist við tillögu sem lögð er fram með þessum flutningsmönnum.