144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[13:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það er ekki Evrópusambandið sem rekur mig upp í ræðustól í dag, heldur langar mig að vekja athygli á því að þann 18. mars sendi Læknafélag Íslands umsögn til nefndasviðs Alþingis út af frumvarpi til laga um breyting á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Í umsögninni koma fram mjög veigamiklar ástæður til þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd gaumgæfi þetta mál betur, kalli það til sín aftur og fari yfir það. Í niðurlagi bréfsins segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Læknafélag Íslands bendir einnig á umsögn umboðsmanns barna. Varnarlausustu fórnarlömb ofneyslu áfengis eru börnin. Alþingi hefur nýlega lögfest barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er þversagnakennt að ætla í framhaldi þess að samþykkja frumvarp sem fyrir fram er vitað að muni hafa neikvæð áhrif á líf og uppvöxt barna og ungmenna sem búa við ofneyslu áfengis í nánasta umhverfi sínu.“

Herra forseti. Mig langar að beina þeirri einlægu ósk til allsherjar- og menntamálanefndar að hún taki þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar og fái fulltrúa Læknafélags Íslands til fundar við sig og fari yfir þetta mál enn betur.