144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[13:45]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég skil það vel að það sé ofarlega í huga hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að fara í gegnum orð og æði sem tengjast þjóðaratkvæðagreiðslum Evrópusambandsins því að það er flókin og djúp umræða sem sjálfstæðismenn þurfa að taka þar og þyrftu að taka það ekki bara við þingið heldur líka við kjósendur flokksins í síðustu kosningum. En það er ekki akkúrat viðfangsefni þeirrar athugasemdar sem ég ætla að bera hér upp sem varðar þá ákvörðun forseta sem enn hefur ekki verið rökstudd. Hún snýst um það að sú þingsályktunartillaga sem hér er til umræðu fáist ekki sett á dagskrá fyrir páskaleyfi, þingsályktunartillaga þar sem öll stjórnarandstaðan, formenn allrar stjórnarandstöðunnar eru flutningsmenn á. Ég tel það óásættanlegt að forseti færi ekki málefnalegri rök fyrir þeirri niðurstöðu sinni en hann hefur gert í umræðunni hingað til.