144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[13:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni þegar hann óskar eftir því að brennivínsfrumvarpið verði kallað aftur inn í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég held að það sé mikilvægt að gera það enda er málið ekki tilbúið til að fara hér í umræðu, það eru allt of margir lausir endar í því. Þannig að ég fagna því að hv. þingmaður skuli benda á þetta og tek undir það.

Í öðru lagi vil ég eins og aðrir sem hafa komið hér upp undir þessum lið óska eftir rökstuðningi fyrir því af hverju mál sem stjórnarandstaðan stendur öll að baki og tilkynnt var með mjög góðum fyrirvara á fundi formanna þingflokka að væri von á, er ekki hér á dagskrá og af hverju verið er að eyða tímanum í að ræða málið undir fundarstjórn forseta þegar svo auðvelt væri að setja málið á dagskrá og ganga frá því þar.