144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[13:50]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér aftur því að það vekur slíka furðu að fjórir formenn minni hlutans í þinginu leggi fram tillögu um þetta þjóðþrifahagsmunamál og hún fáist ekki sett á dagskrá fyrir páskaleyfi. Hvaða mál eru svo brýn að ekki er hægt að setja þetta mál á dagskrá? Er það málið sem ætlað er að grafa undan þróunarsamvinnu Íslands við fátækustu ríki þessa heims? Er það mikilvægara mál? Komið hefur fram í máli varaformanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins að málið þurfi ítarlega umræðu. Minni hlutinn er tilbúinn í ítarlega, efnislega umræðu. Við höfum marga dag fram undan til þess. En það væri áhugavert að vita hversu ítarleg og efnisleg umræðan var þegar bréf hæstv. utanríkisráðherra var kynnt í þingflokkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.