144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[13:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar var ekki að byrja í stjórnmálum í gær og við höfum reyndar verið samferða hér ansi lengi. Hv. þingmaður veit það alveg að ef á að ræða þessi mál núna strax með afmörkuðum tíma þá erum við að drepa umræðuna. Það er bara þannig. Ef við hins vegar förum þá leið sem ég er ánægður að heyra næstum-því-formann Samfylkingarinnar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, minnast á. Hún kom með tímamótayfirlýsingu því að hún sagði að Samfylkingin væri til í ítarlega efnisumræðu um Evrópusambandið. Það eru tímamót, alger tímamót og það er eitthvað sem ég tel að við ættum að gera.

Við getum ekki verið í þessum hráskinnaleik, við verðum að ræða Evrópusambandsmálin. Það er afskaplega mikilvægt að við séum með einhvern afmarkaðan tíma hér rétt fyrir páskaleyfi. Við skulum fara almennilega í þessa umræðu og ég hvet virðulegan forseta til að beita sér fyrir því að það verði gert.