144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[13:57]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að taka undir með félögum mínum í þinginu í dag sem furða sig á því að ekki sé sett á dagskrá tillaga fjögurra þingflokksformanna stjórnarandstöðunnar hér á Alþingi. Það er mjög merkilegt í ljósi þess að maður skyldi halda að það vægi þyngra ef formaður þingflokks er flutningsmaður þegar mál eru lögð fram.

Varðandi ræðutímatakmarkanir eða ekki takmarkanir eru þær fyrst og fremst til þess að liðka fyrir dagskrá. Það hefur nú verið þannig að stjórnarandstaðan hefur haldið uppi dagskránni framan af þingi og fá mál hafa komið frá ríkisstjórninni nema uppsóp meðal annars um EES-reglugerðir og annað því um líkt. Það er stærsti hlutinn af málum ríkisstjórnarinnar og ekkert er í farvatninu.

Hér erum við hins vegar að fara að ræða mál á eftir sem ekki er þingtækt, það er ekki tilbúið í þinglega meðferð. Mér finnst það alvarlegt mál að hér sé sett á dagskrá viðamikið mál utanríkisráðherra. Við höfum beðið eftir úttekt sem (Forseti hringir.) forseti sjálfur samþykkti að yrði gerð. (Forseti hringir.) Mér finnst það merkileg forgangsröðun að málið sé (Forseti hringir.) samt sem áður sett á dagskrá.