144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[13:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil vegna orða hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, formanns þingflokks sjálfstæðismanna, og hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem er varaformaður þingflokks sjálfstæðismanna, segja frá því að það var miðvikudaginn 18. mars á þingflokksformannafundi sem hv. þm. Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, boðaði að von væri á þessari þingsályktunartillögu frá minni hlutanum og óskaði þá þegar eftir því að hún kæmist sem fyrst á dagskrá. Síðan er hér upplýst að hún eigi að fara á dagskrá 14. apríl, næstum mánuði eftir að þessi ósk var lögð fram. Til þess að liðka fyrir því býður stjórnarandstaðan upp á takmarkaðan tíma í fyrri umr., hún var ekki að biðja um það heldur til þess að liðka til þannig að málið kæmist á dagskrá.