144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Á umtöluðum landsfundi Samfylkingarinnar var meðal annars fjallað um málefni innflytjenda og niðurstöðu kosninga í mörgum Evrópuríkjum síðustu missirin sem sýna uppgang og útbreiðslu öfgaafla sem ala á þjóðernishyggju og andúð á útlendingum og fjölmenningu. Hér á landi hafa slík sjónarmið því miður einnig fengið hljómgrunn.

Heiðursgestur landsfundarins var Evin Incir, framkvæmdastjóri alþjóðasamtaka ungra jafnaðarmanna. Hún kom til Svíþjóðar 6 ára gömul sem flóttamaður frá Kúrdistan. Fjölskyldan flúði land vegna ofsóknar Tyrkja og hefur búið í Svíþjóð síðan. Evin ræddi andúð á útlendingum í Evrópu og sagði að um leið og þjóðernishreyfingar og skæruliðasamtök ýttu undir andúðina bjóði fólki upp á einföld svör sem geta auðveldlega farið saman við óánægju þeirra. Nú eru það innflytjendur sem eiga að bera ábyrgð á efnahagslegum óstöðugleika, sem taka vinnuna frá fólki, bera ábyrgð á verri menntun barna og verra heilbrigðiskerfi. Hér áður voru það gyðingar og sígaunar en nú eru það innflytjendur.

Samfylkingin vill berjast gegn þróun þessara mála hér á landi og byggja á þeirri baráttu á sterkum grunngildum jafnaðarmanna. Það kemur ekki á óvart að þingflokkur jafnaðarmanna í Norðurlandaráði sé sama sinnis en þar er hv. þm. Guðbjartur Hannesson fulltrúi okkar. Þingflokkurinn ályktaði nýlega á þessa leið, með leyfi forseta:

„Við bjóðum alla velkomna til Norðurlanda, sem koma í friði og vilja hefja þar nýtt líf fyrir sig og sína. Og þegar öfgar og hryðjuverk ógna samfélögum okkar, stillum við saman strengi okkar, lítum til beggja handa og sjáum karla og konur, með sömu óskir og þrár — frelsi, jöfnuð og réttlæti fyrir alla.“