144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

störf þingsins.

[14:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að reifa aðeins stöðuna í þinginu þegar sneyðist um þá þingfundadaga sem eftir eru. Ég gerði mér það til gamans að líta á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar þar sem voru í haust 204 mál, þeim fjölgaði raunar í 216 um áramótin, en þegar kannað er hvað ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa lagt fram mörg mál það sem af eru þessu þingi eru þau 87 sem eru ríflega 40% þeirra mála sem er gert ráð fyrir að verði lögð fram á þinginu. Eins og ég bendi á er aðeins farið að sneyðast um þingfundadagana. Alþingi hefur lokið meðferð 43 þingmála stjórnarliða sem eru tæp 20% mála á þingmálaskrá.

Virðulegi forseti. Það er sérstaklega áhugavert að sjá að á nýjum vef Alþingis er hægt að skoða tölfræði um þessi mál og þar kemur meðal annars fram að hlutfall framlagðra mála hjá hæstv. forsætisráðherra af málum á þingmálaskrá vetrarins er 25%. Það eru mörg mál eftir nema hæstv. ríkisstjórn hyggist endurskoða hvaða mál hún ætlar að leggja fram og ég segi það að á þessari furðulegu stöðu eru tvær hliðar. Það er auðvitað mörgum hér inni sem þykir ágætt að hæstv. ríkisstjórn leggi fram sem fæst mál, enda séu málin ekki endilega til mikilla bóta, en það eru líka aðrir hér inni sem hafa áhyggjur af því að þessi seinagangur í framlagningu mála, sem er orðinn morgunljós þegar tölfræðin er lögð fram, fari að hafa áhrif á starfsáætlun þingsins. Ég vil minna hæstv. forseta á að miklu máli skiptir að ef fara á að breyta starfsáætlun hér sé það gert í samráði við hv. þingmenn og hv. þingflokksformenn, að engar slíkar breytingar verði gerðar án samráðs. Þingið getur ekki goldið fyrir það ef engin mál koma frá ríkisstjórninni á réttum tíma. Því miður er oft búið að tala fyrir því frá ýmsum flokkum að ráðherrar leggi mál (Forseti hringir.) sín fram í tíma. Þessi tölfræði bendir ekki til þess að það standi til neinna bóta.