144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

störf þingsins.

[14:22]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég horfði á Kastljóssþáttinn í gær þar sem fjallað var um merkingar á matvælum og að það væri erfitt að skilja hvað væri mikill sykur í matvælum. Ég fagna svona umræðu, sérstaklega í sjónvarpi, þetta er neytendafræðsla af bestu gerð. Það sem mér finnst mjög merkilegt er að í rauninni er verið að ræða um það að upplýsingarnar sem eru á matvælum séu ekki skiljanlegar. Í því sambandi langar mig að minna á þingsályktunartillögu sem ég og þingmenn úr öllum flokkum höfum lagt fram og snýr að því að merkja matvæli með litum eins og Bretar gera, þ.e. rauðu, appelsínugulu og grænu fyrir sykur, salt og fitu. Neytendur handfjatla matvælin úti í búð og ef það er rautt umferðarljós fyrir sykur þýðir það að varan inniheldur mikið af sykri. Salt er einnig nokkuð sem væri hægt að gera heilan Kastljóssþátt um, hvernig merkingar eru á salti og hvort við höldum okkur innan ráðlagðs dagskammts af salti. Við borðum allt of mikið af salti og það hefur áhrif á heilsuna eins og of mikið sykurát.

Mér finnst eiginlega alveg með ólíkindum að við skulum merkja matvæli og veita þannig upplýsingar — en það skilur enginn þær upplýsingar. Ég varð fyrir vonbrigðum þegar ég sá umsagnirnar um þessa góðu þingsályktunartillögu okkar úr öllum flokkum því að þær voru frekar neikvæðar. Á sama tíma er landlæknisembættið að gera góða hluti með því að vera með heimasíðu þar sem menn geta séð hvað er mikill sykur í tiltekinni jógúrttegund og þar fram eftir götunum, en er samt ekki eitthvað sérkennilegt við það að ég standi úti í búð og viti ekki hvað er mikill sykur í vörunni en geti farið inn á einhverja heimasíðu og séð hversu mikill sykur er í vörunni? Ég á að fá þessar upplýsingar þegar ég er úti í búð. Mér finnst að við þurfum að ræða þetta vegna þess að það hefur verið sýnt fram á að við borðum allt of mikið af sykri (Forseti hringir.) og of mikið af salti. Ef við ætlum að breyta þessu verður að upplýsa neytendur þannig að þeir skilji upplýsingarnar.