144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

störf þingsins.

[14:35]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þingflokksformaður Framsóknarflokksins kom hér upp og fjallaði um skort á þakklæti og umfjöllun um þessa skuldaniðurfellingu. Ég vil aðeins kommenta á það. Ég vil segja að alla vega á minni fésbók, minni fréttaveitu þar, þá er fólk heldur betur að sjá að það er tekið úr einum vasa til að setja í annan. Það kemur fólki í opna skjöldu að leiðréttingin er sama sem ekki nein út af því að hún er tekin annars staðar frá.

Ég kem hingað upp til að ræða um fréttir sem Fréttablaðið færði okkur í dag um að hæstv. fjármálaráðherra hyggist taka tollakerfið til gagngerrar endurskoðunar. Ég fagna því og styð hann áfram í því. Það þarf að breyta því öllu saman. Hann leggur áherslu á tolla á föt, að afnema þá. Það er í takt við stefnu Bjartrar framtíðar að gera umhverfið í tollum auðveldara og gegnsærra. Þetta stendur innlendri verslun algerlega fyrir þrifum. Um 40% allrar verslunar á fötum fara fram erlendis. Við þurfum að ná þeirri verslun hingað heim. Ef við ætlum að gera það þurfa þessir tollar að fara lönd og leið. Þeir skila ekki einu sinni það miklu í ríkissjóð. Þannig að hæstv. fjármálaráðherra hefur stuðning Bjartrar framtíðar við þessa miklu og mikilvægu vinnu.