144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

störf þingsins.

[14:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á því að á flokksráðsfundi hjá Vinstri grænum fyrir einhverju síðan var samþykktur samhljóða eindreginn stuðningur við réttlátar launakröfur verkalýðshreyfingarinnar, að sérstaklega þyrfti að hækka verulega taxta þeirra sem væru á lægstu laununum. Nú stendur Starfsgreinasambandið frammi fyrir því að verið er að greiða atkvæði um verkfallsboðun og ef það verður samþykkt, sem allt lítur út fyrir að verði gert, er fyrsta verkfallið 10. apríl. Ef ekki nást samningar verður samfelld vinnustöðvun eftir 26. maí. Þetta er vissulega ögurstund því að það er ekkert smámál fyrir það fólk sem er á lægstu laununum að standa í verkfallsaðgerðum. Maður spyr sig: Hvað er ríkisstjórnin að gera til að reyna að koma til móts við þetta fólk í landinu til að bæta kjör þess? Hvað hefur hún gert? Hún hefur hækkað matarskattinn, lækkað auðlegðarskattinn og er að skoða breytingar í skattkerfinu til hagsbóta fyrir þá efnameiri.

Hv. þingflokksformaður Framsóknar kom áðan inn á að mesta skuldaleiðrétting sem gerð hefur verið væri að koma til framkvæmda núna, (Gripið fram í.) sú stórkostlegasta. Stendur hún undir nafni? (Gripið fram í.) Ég hef ekki orðið vör við fagnaðarbylgju í samfélaginu og að þetta gagnist því fólki sem virkilega þarf á því að halda. (Gripið fram í.) Þarna er ríkið enn eina ferðina að bruðla með almannafé frekar en að greina þann hóp sem virkilega þurfti á aðstoð að halda. Hvað líður úrbótum í húsnæðismálum? Þessi ríkisstjórn er búin að hafa tvö ár og enn er ekkert komið fram í þeim efnum. Þetta er til skammar. Og hvað er núverandi ríkisstjórn (Forseti hringir.) að skoða? Já, að fjölga seðlabankastjórum. Einmitt það sem láglaunafólk og almenningur í landinu hefur beðið eftir. Ég held að menn ættu að hysja upp um sig buxurnar, (Forseti hringir.) skammast sín og vera ekki að hrósa sér af einhverju (Forseti hringir.) sem engin innstæða er fyrir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)