144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

störf þingsins.

[14:40]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Íslenskt samfélag skorar hátt á alþjóðlegum mælikvörðum um jafnrétti kynjanna og við höfum sett okkur skýr markmið um áframhaldandi vinnu á því sviði. Meðal stærstu áskorananna á þeim vettvangi er jafnrétti á vinnumarkaði, bæði í starfsvali og í launum.

Fyrir stuttu var athygli mín vakin á því vinnufyrirkomulagi sem víða er við lýði á hjúkrunarheimilum landsins, sem einkum eru kvennavinnustaðir, en þar telst sjálfsagt mál að bjóða aðeins upp á ráðningu í 80% starf.

Virðulegi forseti. Dytti einhverjum þetta í hug ef þarna væru einkum karlmenn við störf? Í stóriðju eða fiskimjölsverksmiðju til dæmis? Ég leyfi mér að fullyrða að svo er ekki.

Eftir að hafa kynnt mér málið nokkuð sýnist mér að þetta fyrirkomulag sé þannig til komið að eftir hrun var sums staðar gert samkomulag við starfsmenn um að minnka við sig starfshlutfall og vaktafyrirkomulagi breytt til samræmis við það. Því skyldi maður ætla að nú væri verið að snúa til baka og bjóða starfsfólki aukið starfshlutfall en raunin er þvert á móti sú að þetta skipulag virðist frekar vera að breiðast út.

Dæmi eru um að ný hjúkrunarheimili séu að innleiða þetta vaktafyrirkomulag sem gerir annað tveggja að fólk minnkar við sig vinnu eða þarf að mæta oftar á vinnustað til að ná 100% starfshlutfalli. Að mæta oftar á vinnustað þýðir að starfsmenn ná ekki þeim hvíldardögum sem til er ætlast, ferðum til og frá vinnu fjölgar og barnapössun verður snúnari.

Meiri hluti starfsmanna á þessum vinnustöðum er ófaglærður og tilheyrir þeim hópi samfélagsins sem er hvað launalægstur og honum er boðið upp á 80% starf. Á þessum vinnustöðum er því gjarnan haldið fram að 80% starfshlutfall sé alveg nóg fyrir einstaklinginn því að starfið sé erfitt og vaktir slítandi. Er þá verið að halda því fram að hlutastarfið sé í raun 100% vinna sem greidd eru 80% laun fyrir? Á sama tíma erum við í fullri alvöru að ræða um að stytta vinnuvikuna.

Á hjúkrunarheimilunum í landinu er unnið gott starf en ég held að nú sé fullt tilefni fyrir fjárveitingavaldið, (Forseti hringir.) rekstraraðila og stjórnendur þessara heimila að staldra við og velta fyrir sér hvort fyrirkomulagið samrýmist markmiðum um jafnrétti á vinnumarkaði.