144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

samkeppni á smásölumarkaði.

[15:17]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að halda hér aðeins áfram með það sem ég var að ræða áðan, þ.e. þessa skýrslu, og fara í það sem bent er á, að aðrar verslanir en þessar stóru verslanasamstæður þrjár hafi fengið mun lakari kjör hjá birgjum. Auðvitað vitum við að það þýðir að litlu verslanirnar standa frammi fyrir því að búa ekki við eðlilega samkeppni á matvörumarkaði. Það er mjög alvarlegt og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra af því að ég get ekki fundið því stað í skýrslunni hvernig afsláttarþróunin hefur verið frá birgjum til stóru verslanasamstæðanna annars vegar og minni hins vegar frá því til dæmis að síðasta skýrsla kom út.

Í skýrslunni er líka talað um að það sé mikilvægt að neytendur og samtök sem bera hag þeirra fyrir brjósti sýni fyrirtækjum á dagvörumarkaði aðhald. Mér finnst að þetta eigi fyrst og fremst að vera á vegum eftirlitsins og við sem neytendur getum kannski takmarkað gert nema skrifað greinar og látið í okkur heyra með einhverjum þeim hætti en það er fyrst og fremst okkar sem búum til regluverkið og veitum fjármuni á tiltekna staði að gera það sem þarf.

Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé tilbúin að auka fé í eftirlit Samkeppniseftirlitsins. Þar starfa 23 starfsmenn en forstjórinn telur að það þurfi að vera um það bil 30 þannig að hægt sé að standa vel að eftirlitinu.

Hér hefur aðeins verið rætt um tollamálin og mér finnst líka að við þurfum að horfa til uppruna vörunnar, dýraverndar. Við setjum íþyngjandi reglur um íslenskan landbúnað með dýraverndarlögunum, ítarlegri en ESB-löndin þurfa að standa undir, og þá spyr ég ráðherrann: Er hann tilbúinn að segja að innflutningur eigi að minnsta kosti að standast sömu kröfur eða finnst okkur í lagi að landbúnaðarvörur erlendis frá standist ekki íslenskar reglugerðir? Við getum ekki bæði sleppt og haldið. Þó að við viljum öll lækka vöruverð getum við ekki (Forseti hringir.) látið það kosta hvað sem er.