144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

samkeppni á smásölumarkaði.

[15:19]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að benda á það áður en ég fer að tala um verðmerkingar, sem mér finnst gríðarlega mikilvægar, að Samkeppniseftirlitið er mjög mikilvæg stofnun þegar kemur að því að tryggja að það sé samkeppni á markaði og ryðja samkeppnishindrunum úr vegi. Þar starfa 23 starfsmenn. Þetta er ekki stór stofnun og ég tel mikilvægt að efla Samkeppniseftirlitið enn frekar. Það skilar sér til baka, það er bara grundvallaratriði.

Verðmerkingar eru mjög mikilvægar vegna þess að það er ekki til neitt sem heitir verðlagseftirlit í dag heldur sinna bara neytendur verðlagseftirliti með því að hafna vöru ef þeim finnst verðið of hátt eða kaupa hana ef þeir eru sáttir við verðið. Þannig mundi það virka ef markaðurinn væri fullkominn. Það er til dæmis mjög sérstakt að vera í grænmetis- og ávaxtadeildum stórmarkaða og sjá kílóverð á öllum vörum en það er alveg hipsumhaps hvort það eru vigtir á þessum stöðum. Maður stendur til dæmis með avókadó í hendinni, sér kílóverðið en getur hvergi vigtað vöruna og séð hvað hún sjálf kostar. Þetta er ekki til þess fallið að auka verðvitund og ég held að það þurfi bara að gera skurk í þessum málum. Það á að vera alveg á hreinu hvað hlutirnir kosta.

Það var alveg eðlilegt skref að hætta forverðmerkingum á ýmsum kjötvörum, að þær kæmu ekki verðmerktar inn í verslanir, en þá er staðan orðin þannig að í kælum og frystum eru verðmerkingarnar á hilluköntunum með kílóverði og svo eru einhverjir skannar. Ég veit ekki hvort það hefur verið athugað hvort þessi aðgerð hafi heppnast og hvort neytendur hafi með einhverjum hætti misst verðskyn þegar kemur að þessum vörum. Mér finnst þetta ekki þægilegt svo ég tali fyrir sjálfa mig. Ég vil vita hvað kjúklingurinn kostar, ekkert endilega kílóverðið. (Forseti hringir.) Þetta með verðmerkingarnar þyrfti að skoða betur.