144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

samkeppni á smásölumarkaði.

[15:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu sem er búin að vera mjög góð. Það eru tvö atriði sem ég vil einkum fara hér yfir, ég fagna því sem hæstv. ráðherra sagði áðan um að frekar yrðu skoðaðar þær ástæður sem hafa orðið til þess að verð hefur hækkað umfram til dæmis gengisþróun. Hvað varðar landbúnaðarumræðuna, sem er út af fyrir sig hefðbundin, tek ég heils hugar undir að auðvitað þurfum við að endurskoða það kerfi sem við búum við. En við getum ekki endurskoðað það einhliða, við verðum að gera það með gagnkvæmum samningum við til dæmis Evrópusambandið, ég veit að þar eru umræður í gangi, til að við getum þá notið tollfríðinda þar á móti því sem við hleypum inn til okkar.

Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um að við þurfum að vanda val á þeim landbúnaðarafurðum sem við flytjum inn. Við eigum ekki að flytja inn það versta, við eigum að flytja inn það besta.

Það er líka athyglisvert sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir vakti athygli á upp úr matarsóunarkaflanum í skýrslu Samkeppniseftirlitsins. Ég fagna sérstaklega þeim viðbrögðum sem heyrst hafa frá versluninni hvað það varðar, menn vilja taka þar á og lækka jafnvel verð á vöru sem er í hættu á að skemmast áður en til þess kemur.

Svo brogað sem það er hefur samkeppnisleysið í mjólkuriðnaðinum leitt af sér tvennt, það að bændur hafa fengið meira í sinn hlut og neytendur lægra verð en á flestum örðum vörum þau tíu ár sem það hefur staðið. Hinn endinn á peningnum, sem er verri, er sá að það fyrirtæki hefur farið offari gegn smáum samkeppnisaðilum.

Í skýrslunni segir á bls. 6, með leyfi forseta:

„Þá brýnir Samkeppniseftirlitið fyrir stjórnvöldum á þessu sviði að leggjast á árar með eftirlitinu og gera átak í því að bæta samkeppnisaðstæður á dagvörumarkaði. Það stoðar t.d. lítið að stjórnvöld gagnrýni hátt verðlag á matvöru ef þau eru sjálf ekki reiðubúin að grípa til aðgerða (Forseti hringir.) sem til þess eru fallnar að efla samkeppni.“

Síðan verð ég að segja, þrátt fyrir að tími minn sé búinn, að auðvitað eiga neytendur að taka saman höndum líka. Undanfarið (Forseti hringir.) hefur oft verið safnast saman á Austurvelli af minna tilefni (Forseti hringir.) en því að hér er hátt vöruverð.