144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

um fundarstjórn.

[15:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar að mál það sem hér liggur fyrir sé fyllilega tækt til þinglegrar meðferðar. Menn geta haft mismunandi skoðanir á þeim tillögum sem þar koma fram og það er hlutverk okkar í þinginu, bæði hér í þingsal og í utanríkismálanefnd, að fjalla um rök með og á móti þeim breytingum sem þarna eru lagðar til. Í þeirri málsmeðferð geta að sjálfsögðu komið fram athugasemdir um að einhverja hluti þurfi að skoða betur og að sjálfsögðu verður það gert.

Sú krafa sem hér er sett fram um að málið komi ekki til umræðu í þinginu fyrr en gerð hafi einhver stjórnsýsluúttekt af hálfu Ríkisendurskoðunar er alveg fráleit. Það er alveg fráleitt fyrir okkur sem sitjum í þessum sal að hlusta á fjóra ráðherra síðustu ríkisstjórnar koma hér og tala um að ekki sé hægt að leggja fram frumvarp um að breyta stofnunum á vegum ríkisvaldsins öðruvísi en að fyrir fram fari fram úttekt á vegum Ríkisendurskoðunar. (Forseti hringir.) Mér vitanlega er óþekkt að tillaga komi um slíkt áður (Forseti hringir.) en mál kemur til umfjöllunar í þinginu. (Gripið fram í.)