144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

um fundarstjórn.

[15:37]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að taka undir það sem sagt hefur verið í þessum efnum og sérstaklega með því bréfi sem afgreitt var úr forsætisnefnd í gær til Ríkisendurskoðunar um faglega úttekt. Það breytir mjög miklu. Þegar maður les yfir frumvarpið, til dæmis hvað varðar starfsmannamál, sýnist mér að ekki sé farið eftir því sem handbók fjármálaráðuneytis frá 2008, um sameiningu stofnana, segir til um. Mér sýnist með öðrum orðum að þarna sé um flaustursleg vinnubrögð að hætti hússins að ræða, og horfi ég hér á hæstv. utanríkisráðherra í þeim efnum, (Utanrrh.: Eru kosningar hjá Samfó?) og sem tíðkuðust í atvinnuvegaráðuneytinu þegar verið var að búa til frumvarp um sameiningu Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunar, sem liggur hjá okkur í nefndinni en hefur varla verið rætt, en þar er talað um að segja öllum starfsmönnum upp og allar þær reglur sem fjármálaráðuneytið hefur gert eru þverbrotnar. Mér sýnist (Forseti hringir.) svipað eiga sér stað hér þegar maður les kaflann um starfsmannamál. (Forseti hringir.) Ég vil því bæta því við að ég tel mjög mikilvægt að fá álit (Forseti hringir.) Ríkisendurskoðunar á þessum þætti svo og hinu sem búið er að samþykkja.